144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.

[15:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Ánægjulegt er til þess að vita hversu vel tókst til um dagskrá 19. júní, þegar við minntumst 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna, jafnt á hátíðarfundinum hér á Alþingi sem á þeirri dagskrá sem efnt var til við Alþingishúsið sama dag. Ekki er ofmælt að segja að mikil eindrægni hafi ríkt um ákvörðun Alþingis um stofnun Jafnréttissjóðs.

Þátttaka almennings í dagskránni á Austurvelli var mikil, fór fram með prúðmannlegum hætti og var í alla staði eftirminnileg. Allir þeir sem komu að undirbúningi dagskrárinnar og afhendingu styttunnar af Ingibjörgu H. Bjarnason eiga miklar þakkir skildar.

Um 1.500 gestir heimsóttu Alþingi á laugardaginn. Húsið var opið almenningi í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og var sýning í húsinu tileinkuð konum á Alþingi og kosningarrétti kvenna. Gestirnir voru á öllum aldri, konur og karlar. Af þessu tilefni vill forseti færa starfsfólki þingsins sem annaðist undirbúning sýningarinnar og tók á móti gestum, ásamt allnokkrum þingmönnum, kærar þakkir fyrir þeirra mikla og góða framlag, sem er til þess fallið að opna almenningi aðgang að þinginu og styrkja tengsl almennings og Alþingis.