144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Því miður nýttist okkur tíminn ekki mjög vel frá síðasta þriðjudegi. Það hefur ekkert verið talað við stjórnarandstöðuna og menn hafa ekki átt í neinum fundahöldum til þess að leysa þá stöðu sem uppi er í þinginu. Því miður talar hæstv. fjármálaráðherra eins og hann skilji ekki hvernig þingstörfin ganga fyrir sig, eins og hann hafi enga þingreynslu, eins og hann átti sig ekki á því að þetta snýst ekki um það hvað ríkisstjórnin fær að fara með hér í gegn, heldur snýst þetta um það hvað hægt er að afgreiða án þess að menn nýti sér sinn sjálfsagða rétt að fá að tala í málum í þinginu. Það sem hæstv. fjármálaráðherra vill helst, eða svo má skilja hann, er að hér séu mál afgreidd á færibandi út úr þinginu, þremur vikum eftir að starfsáætlun hefur lokið, án umræðu. Það er gersamlega ótækt að sitja undir svona reiðilestri frá hæstv. fjármálaráðherra í þessari stöðu. Hann verður að átta sig á því að við erum komin þrjár vikur fram yfir starfsáætlun og hann getur ekki komið með hvert málið á fætur öðru inn í þingið og ætlast til þess (Forseti hringir.) að þau séu afgreidd án umræðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)