144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni þarf ekkert að koma á óvart sú staða sem hér er uppi. Hæstv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, vakti athygli ráðherra á því þegar í haust að þeir þyrftu að koma tímanlega inn með mál ef þeir ætluðust til að fá þau afgreidd. Það gerði ríkisstjórnin ekki og því liggur hér fjöldi mála óafgreiddur.

Til að ráða bót á því vill ríkisstjórnin funda í sumar. Þá er rétt, virðulegur forseti, að hér sé sett á starfsáætlun. Ég sakna þess til dæmis að við ræðum ekki ýmsar mikilvægar skýrslur eins og skýrsluna um verðtryggingu, skýrsluna um embættisfærslur innanríkisráðherra og önnur mál sem bíða þeirrar umræðu og umfjöllunar sem þarf að vera í þinginu auk þess sem fyrir liggja fjölmargar góðar fyrirspurnir sem mikilvægt er að komist til ráðherranna úr því fundarhöld eiga að standa hér vikum saman.