144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar margt er að segja um fundarstjórn er eðlilegt að menn segi ýmislegt og margt um fundarstjórn. Orð hæstv. fjármálaráðherra krefja okkur um frekari umræðu um lýðræðisfyrirkomulagið í þessu landi almennt vegna þess að nú vill hæstv. ráðherra meina að þetta séu einhvern veginn ólýðræðisleg vinnubrögð af hálfu minni hlutans. Og veistu hvað, virðulegi forseti? Ég skal bara segja það að vinnubrögð Alþingis almennt er ekkert endilega jafn lýðræðisleg og fólk heldur í landinu. Þess vegna er ég sífellt að tuða hér yfir því að ég vilji meira lýðræði fyrir þjóðina í landinu þannig að hún geti sjálf tekið þær ákvarðanir sem hæstv. ráðherra er svo annt um.

Það að minni hlutinn beiti sér fyrir því sem minni hlutinn er kosinn á þing til þess að beita sér fyrir er ekki andlýðræðislegt. Ef þetta væri fullkomið lýðræði, sem ég geri mér grein fyrir að verður aldrei, þá væru 40% þingsins með sirka 40% valdsins og 60% þingsins með sirka 60% valdsins, en það er ekki þannig, virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita það og skilja. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Enn og aftur, til þess að útkljá þessi mál sendum þau til þjóðarinnar, ýmist í gegnum minni hluta þingsins eða ákveðið hlutfall kosningarbærra manna á landinu. Þannig getum við leyst þessi mál friðsamlega og án svokallaðra (Forseti hringir.) hrossakaupa sem hér viðgangast á hverju einasta ári. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.