144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fannst það ekki skynsamlegt innlegg hjá hæstv. fjármálaráðherra að skella allri skuldinni á stjórnarandstöðuna með þeim hætti sem hann gerði, bara af því að stjórnarandstaðan vill ekki sitja og standa og þegja eins og hæstv. fjármálaráðherra hentar þá skal þetta allt vera hennar sök.

Nú er stjórnarandstaðan búin að margsýna það í verki undanfarna daga að hún tekur málefnalega á óskum um mál sem þurfa hraða afgreiðslu. Við komum hér saman á sunnudegi og efnahags- og viðskiptanefnd tók að sér að flytja frumvarp til að stoppa upp í eyður í gjaldeyrislöggjöfinni. Hér voru sett illu heilli lög á BHM og hjúkrunarfræðinga í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna, en við töfðum ekki fyrir því úr því að frumvarp var fram komið um slíkt og skaðinn skeður. Og við tókum á móti stóru gjaldeyrisfrumvörpunum löngu, löngu eftir að frestir til að leggja fram stjórnarfrumvörp voru útrunnir, samþykktum að taka þau á dagskrá með afbrigðum og erum að vinna í mikilli samstöðu að framgangi þess máls. Er þetta (Forseti hringir.) stjórnarandstaða sem hæstv. fjármálaráðherra hefur alveg sérstaklega (Forseti hringir.) ástæðu til þess að hnýta í bara af því að hér er ekki allt (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og hann vill? Ég held að hæstv. ráðherra ætti aðeins að hugsa sinn gang.