144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kjarasamningar heilbrigðisstétta.

[15:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir að ríkisstjórnarmeirihlutinn tók þá óheillavænlegu ákvörðun að beita lagasetningu á verkföll fyrir rúmri viku hefur það gerst að hátt í 200 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum. Fyrir lá áður að um 20% ljósmæðra höfðu aflað sér staðfestingar á menntun til að geta leitað sér að störfum annars staðar og geislafræðingar hafa verið í verkfalli vikum saman.

Aðildarfélög BHM og hjúkrunarfræðingar verða ekki vör við mikla hreyfingu í samningamálum. Það var gefinn frestur til mánaðamóta til að ná samningum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða fyrirmæli ríkisstjórnin hafi gefið samninganefndinni. Hefur ríkisstjórnin gert einhverja gangskör að því að auka svigrúm samninganefndar ríkisins til þess að ná samningum við hjúkrunarfræðinga og við aðildarfélög BHM nú meðan enn er tækifæri til þess?

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra líka: Hvar eru efndir á þeim yfirlýsingum sem hann gaf þegar gengið var frá samningum við lækna í janúarmánuði um viðbótarfjárveitingar til heilbrigðiskerfisins sem hvergi sér stað, hvorki í ríkisfjármálaáætlun né í neinum tillöguflutningi á Alþingi Íslendinga? Hafa þeir fjármunir verið afhentir eða yfirvöldum heilbrigðismála gert viðvart að þar sé viðbótarfé að finna.

Að síðustu: Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að taka á þeirri skelfilegu stöðu sem upp er komin þegar heilbrigðiskerfið er í uppnámi? Allar (Forseti hringir.) viðvaranir okkar hafa reynst réttar. Það var (Forseti hringir.) mikið óheillaskref að leggja út í þá löggjöf sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnarmeirihlutinn fór í.