144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kjarasamningar heilbrigðisstétta.

[15:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra kemur sér ekki undan því að stjórnvöld gefa línu í málum sem þessum. Hæstv. forsætisráðherra gaf línu í janúarmánuði þegar samið var við lækna og yfirlýsingar voru gefnar um auknar fjárveitingar í heilbrigðiskerfið og að semja ætti við lækna og það yrði samið við þá á tilteknum forsendum vegna þess að þeir væru mikilvægir heilbrigðiskerfinu.

Aðrar stéttir, fjölmennar kvennastéttir sem eru engu að síður mikilvægar heilbrigðiskerfinu, upplifa ekki að fá sambærilega samninga og úrlausn nú.

Ég hlýt að ítreka fyrirspurn mína til hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru peningarnir sem hæstv. forsætisráðherra lofaði í janúarmánuði í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins? Hvar sér þeirra stað í ríkisfjármálaáætlun? Hvar sér þeirra stað í tillöguflutningi hér? Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra tryggja að heilbrigðisþjónustan í landinu virki þegar við horfum fram á (Forseti hringir.) uppsagnir sem hann verður að taka (Forseti hringir.) ábyrgð á?