144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kjarasamningar heilbrigðisstétta.

[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég bendi hv. þingmanni á það sem ég taldi reyndar að hann hlyti að vera búinn að sjá, nógu oft hefur verið bent á það, að framlög til heilbrigðismála, þar með talið til Landspítalans, hafa aldrei verið jafn mikil og nú. Eftir gríðarlegan niðurskurð á síðasta kjörtímabili sem nam 30 milljörðum kr. erum við nú ekki aðeins búin að vinna upp þann niðurskurð heldur hafa viðbæturnar verið slíkar að framlögin hafa aldrei verið jafn há og nú. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu standa við það að fylgja eftir þeim yfirlýsingum sem hún hefur gefið um áframhaldandi uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu því að ekki veitir af eftir niðurskurð síðasta kjörtímabils.

Hvað varðar svo þá stöðu sem uppi er vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga þá vona ég og biðla til heilbrigðisstarfsfólks almennt að taka þátt í því að auka kaupmátt áfram og ná með því mestu kjarabótum sem þessar stéttir eða nokkrar aðrar stéttir hafa staðið frammi fyrir á Íslandi um áratugaskeið.