144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kynbundinn launamunur.

[15:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þau ánægjulegu tíðindi bárust á dögunum að hæstv. forsætisráðherra hefði verið valinn í hóp tíu þjóðarleiðtoga sem eiga að leiða nýtt verkefni, HeForShe, verkefni um kynjajafnrétti á vegum UN Women. Ég óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með þetta. Um verkefnið segir, m.a. á heimasíðu forsætisráðuneytisins, að þessir leiðtogar hafi allir skuldbundið sig til að takast á við mismunandi þætti kynjamisréttis en skuldbindingar Íslands snúa meðal annars að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Þetta er hið besta mál, jákvætt verkefni og gaman að heyra að hæstv. forsætisráðherra sé einn þeirra tíu þjóðarleiðtoga sem eiga að vera í fararbroddi í þessu verkefni.

Hluti af verkefninu er eiginlega að brúa bilið milli kynjanna þegar kemur að launum. Markið er sett á 2022, það eru því sjö ár til stefnu. Það liggur fyrir að launamunur kynjanna er allnokkur á Íslandi, 5,7–18,3% samkvæmt heimasíðu verkefnisins sjálfs, og mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig eigi að ná þessu markmiði. Hér kemur fram að það eigi að kalla alla til samráðs, hið opinbera, einkageirann, sveitarfélög, ríki og hvaðeina, en hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að ná megi þessu markmiði þegar kemur að stórum kvennastéttum?

Ég nefni þetta auðvitað af því að hér hafa nýlega verið sett lög á verkfall einnar slíkrar kvennastéttar, hjúkrunarfræðinga. Sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að hann sem forvígismaður þessa verkefnis og þar með ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að fara í sértækar aðgerðir til að hækka laun kvennastétta til að (Forseti hringir.) afmá megi kynbundinn launamun?