144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

háskólamenntun og laun.

[16:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get að mestu tekið undir áhyggjur hv. fyrirspyrjanda varðandi það hvernig laun eru greidd fyrir menntun. Það er þó nauðsynlegt að reyna að átta sig á því hvað er á ferðinni. Það er alveg rétt sem hér var rætt áðan, jöfnuður hefur aukist mjög á Íslandi hvað það varðar að tekjubilið er að minnka. Ég heyrði reyndar að hv. þingmaður nefndi að auðvitað þyrfti að gæta þess að það væri í hófi, þ.e. munurinn á milli þeirra sem fá háar tekjur vegna menntunar og annarra, en þessar niðurstöður sýna okkur þó að mismunurinn milli þeirra sem afla sér menntunar sérstaklega og þeirra sem gera það ekki er minnstur hér. Þetta passar alveg við niðurstöðurnar sem við sjáum varðandi Gini-stuðulinn, hann er núna í sögulegu lágmarki á Íslandi, ég fletti því upp undir ræðu hv. þingmanns. Hann stendur í 22,7 stigum sem er mjög lágt í öllum alþjóðlegum samanburði. Þetta hangir saman.

Ég tel að þá þurfi auðvitað að velta fyrir sér þáttum eins og samsetningu háskólamenntunar hjá okkur. Hvert liggur straumurinn, í hverju erum við að mennta okkur og hvernig nýtist það inn í það efnahagslíf sem við búum við í dag? Og svo líka það sem hv. þingmaður nefndi alveg réttilega, og er til umhugsunar, þróun efnahagsstarfsemi okkar, efnahagslífsins. Nýtum við menntun nægilega vel? Eðli málsins samkvæmt er mikill hluti af okkar efnahagsstarfsemi háður útflutningi á hrávöru en hér hefur líka verið mjög vaxandi alls konar vísindastarfsemi í kringum grunnatvinnuvegi okkar eins og sjávarútveginn þar sem sá þátturinn vex og verðmætasköpun sem byggir einmitt á vísindum og þekkingu. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vera bjartsýnn hvað þetta varðar, en ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að þetta stingur mjög í augu og er umhugsunar- og áhyggjuefni fyrir okkur.