144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

háskólamenntun og laun.

[16:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er líka menningarlegt mál. Við erum þjóðin sem bjó til þann málshátt að bókvitið yrði ekki í askana látið. Sú hugsun hefur því miður lengi verið landlæg, en ég er þeirrar skoðunar að þetta sé að breytast. Ég vísa enn og aftur til þess að við þurfum líka kannski að vera tilbúin til að horfa gagnrýnið á uppbyggingu háskólakerfisins okkar, í hverju við erum að mennta okkur og hvernig menntunin nýtist fyrir allt samfélagið. Það má ekki gleyma því að menntunin sjálf breytir samfélaginu smám saman, það er ekki bara það hvernig samfélagið er sem tekur á móti.

Ég vil líka vekja athygli á því að með því sem við erum að gera núna varðandi styttingu námstíma til stúdentsprófs erum við að hækka ævitekjur þeirra sem ganga menntaveginn með því að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi. Þess vegna lagði BHM á það áherslu í sinni menntastefnu að það væri gert. Það þýðir að ævitekjur menntaðs fólks munu hækka sem því nemur. Það skref eitt og sér skiptir máli í því sem hv. þingmaður nefnir hér, virðulegi forseti.