144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

leynilegt eftirlit með almenningi.

[16:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessum efnum verðum við að gæta að því, sem ég og hv. þingmaður höfum svo sem rætt áður, að alltaf þarf visst jafnvægi að vera á milli okkar borgaralegu réttinda sem við höldum í heiðri og hinna, að gæta að öryggi borganna. Það er alltaf þetta tvennt sem við verðum að láta vegast á og skiptir máli hvernig á er haldið þegar við byggjum samfélag okkar upp.

Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé sérstaklega að spyrja að því þegar lögreglumenn sinna störfum sínum og eru ekki einkennisklæddir. Þá kann vel að vera að lögreglan þurfi undir ákveðnum kringumstæðum að geta athafnað sig án þess að vera í einkennisbúningum í því skyni að halda uppi lögum og reglu.

Hér var nefnd sú hátíð sem fór fram í Laugardalnum núna um helgina. Ég held að hún hafi farið vel fram. Ég gat ekki betur séð. Ég bý reyndar í næstu götu og fylgdist að minnsta kosti með músíkinni sem heyrðist úr dalnum þessa helgi. Ég held að þetta hafi farið afskaplega vel fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn verði ekki óttaslegnir yfir því þótt lögreglan sé að athafna sig á slíkum opnum hátíðum. Hún er ekki að gera neitt annað en að halda uppi ákveðnu öryggi gagnvart öllum, þeim sem eru gestir á hátíðinni og jafnvel líka ef kann að vera einhvers konar brotavilji hjá einstaka mönnum, sem alltaf getur verið fyrir hendi og er fyrir hendi hvar sem er í þjóðfélaginu. Ég held að þarna þurfum við að gæta að því að lögreglan hafi heimildir og möguleika til þess að sinna starfi sínu og halda uppi öryggi en óttast ekki að lögreglan sé ekki í einkennisbúningum undir vissum kringumstæðum. Mér finnst það ekki geta verið útgangspunkturinn í því sem við erum að tefla fram hér heldur fyrst og fremst þetta: Gætir lögreglan hófs í framgöngu sinni til að viðhalda öryggi í landinu?