144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

leynilegt eftirlit með almenningi.

[16:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki pólitísk spurning hvort heimilt sé að stunda fíkniefnasölu hér á landi. Það eru ákveðin lög í gildi í landinu og lögreglan hefur eftirlit með því að þau séu í heiðri höfð. Það er ekki á hendi pólitíkusa að ákveða að það sé með einhverjum öðrum hætti nema þá að breyta lögunum. Leiðin er þá að breyta lögunum. En að óbreyttum lögum er þetta hlutverk lögreglunnar og hún verður að hafa traust manna og hefur haft traust manna til að framfylgja þeim og halda uppi lögum og reglu. Mér finnst skipta máli að menn séu ekki óttaslegnir yfir því þegar lögreglan gerir það með þeim hætti sem hún telur réttast.

Ég get ekki fallist á það með hv. þingmanni að lögreglan hafi stigið of langt í einhverjum aðstæðum á útihátíðinni sem haldin var í Laugardalnum í vikunni, heldur var þvert á móti verið að passa upp á að allt færi fram með kyrrum kjörum. Ég held að það hafi tekist og þá segi ég að starf lögreglunnar hafi borið árangur.