144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

auðlindaákvæði í stjórnarskrána.

[16:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á liðnum tveimur áratugum og rúmlega það hefur íslensk þjóð skipst í fylkingar gagnvart sjávarútvegskerfinu og miklar deilur verið um það hvernig stjórn fiskveiða eigi að vera og hvernig farið sé með auðlindina og hvert afnotagjaldið skuli vera af nýtingu hennar.

Nú á þessu vorþingi er mikil deila um það hvernig eigi að ljúka makrílfrumvarpi. Einmitt þegar það frumvarp kom fyrst fram þá komu verstu gallar kerfisins í ljós. Annars vegar var verið að loka kerfinu og skipta því niður á ákveðna aðila, þ.e. hlutdeildarsetja kerfið, sem sagt loka því algjörlega þannig að ekki komist aðrir inn í það. Hins vegar var upphaflega í því frumvarpi leyft framsal sem þýddi að þeim handhöfum sem fengu úthlutun í makrílnum var leyft að fénýta hana sjálfir.

Eitt af því sem kom fram í sáttanefnd og hefur komið ítrekað fram í umræðu í þinginu er að ef einhver sátt á að nást í þessum málaflokki þá er mikilvægt að fara að þeirri ósk þjóðarinnar að auðlindaákvæði komi í stjórnarskrána og mikilvægt að fá þá skýr svör á því hvort hæstv. forsætisráðherra standi ekki við fyrri fullyrðingu sína, sem kom fram í svari á Alþingi, að það sé mikilvægt að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Þá um leið er mikilvægt að spyrja hæstv. forsætisráðherra, því að hann er yfir stjórnarskrárnefndinni og skipar þar formann, hvað hann hafi gert til þess að tryggja að ná fram ákvæðinu sem var samþykkt með gríðarlega miklum meiri hluta í viðhorfskönnun þegar verið var að vinna að gerð stjórnarskrárinnar.

Mér finnst þetta skipta miklu máli vegna þess að við þurfum að horfa fram á veginn og losna út úr þeim ógöngum sem við erum komin í. Mig langar að heyra sjónarmið forsætisráðherra sem verkstjóra þessarar ríkisstjórnar.