144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

auðlindaákvæði í stjórnarskrána.

[16:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svar hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það sé afar mikilvægt að hann berjist fyrir þessu máli og ýti því áfram.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra aðeins ítarlegar út í þetta. Það var gerð skoðanakönnun um ákveðið orðalag á auðlindaákvæðinu. Er það ekki rétt skilið hjá mér að forsætisráðherra styðji ákvæðið eins og það var lagt fram þar?

Hins vegar langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að sett var í forgang af svokallaðri sáttanefnd að auðlindaákvæði kæmi í stjórnarskrána. Þetta hefur verið ákallið sem allir setja fram og núna hafa rúmlega 51 þúsund skrifað undir kröfu um að þetta ákvæði komi inn áður en annað er ákveðið í sambandi við framhald sjávarútvegsins. Er ekki eðlilegt í því samhengi að menn bíði með makrílfrumvarpið í þeirri mynd sem það hefur komið fram og taki þetta ákvæði sérstaklega (Forseti hringir.) fram fyrir sem tilraun til að ná sátt í málinu?