144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:24]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ef þetta væri sjónvarpsþáttaröð væru allir að velta fyrir sér núna: Hvað gerist næst? Eða öllu heldur: Á þetta bara að vera svona? Á ekkert að gerast? Vegna þess að það hlýtur að fara að verða einhver framvinda í þessum söguþræði. Eigum við bara að spóla hér áfram í sömu hjólförunum? Og vona menn að málin leysist þannig?

Ég hef nú verið þeirrar trúar að hægt sé að leysa öll mál ef menn væru tilbúnir til þess að tala saman, en menn eru greinilega ekki tilbúnir til þess. Hér er tíminn ekki nýttur til þess að hóa í menn, að kalla saman stjórn og stjórnarandstöðu, fara yfir stöðuna og velta fyrir sér hversu mikið beri á milli og hvernig hægt sé að leysa það. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir. Heilu og hálfu vikurnar eru einhvern veginn látnar renna út í sandinn. Maður veltir fyrir sér hvort ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir séu að bíða eftir því að við í minni hlutanum komum heim til þeirra til þess að leysa þessi mál, að við mætum bara og bönkum upp á og segjum: Heyrðu, nú er ég kominn með hérna mjög góða tillögu, við munum bara samþykkja allt frá (Forseti hringir.) ykkur og ekki tala um neitt í neinu máli, þá bara fer þetta allt í gegn hérna og allt verður í (Forseti hringir.) himnalagi. Hvað á að gerast næst, virðulegur forseti?