144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er eitt að krefjast þess að þingfundir séu haldnir á þessum og hinum tímanum, annað er að krefjast þess að eitthvert tiltekið mál sé tekið fyrir, því að það er algjörlega sjálfsagt að hafa starfsáætlun, finnst mér, þegar málin eru komin í þessa stöðu. Það er ljóst að þingmenn minni hlutans gera ráð fyrir því að vera hérna eitthvað áfram í sumar, við gerum í raun og veru ráð fyrir sumarþingi, ég geri alla vega ráð fyrir því vegna þess að ég sé ekki hvernig á að leysa þennan hnút. Það er ekki mín reynsla að það taki stuttan tíma að leysa úr ágreiningi eins og þeim sem upp er kominn enn og aftur. Starfsáætlun er því algjörlega sjálfsögð. Á þessum vinnustað er alveg nógu mikill glundroði að öllu jöfnu þegar starfsáætlun er í gildi, þá er alveg nógu flókið að finna út úr því hvernig maður á að forgangsraða sínum tíma hér á bæ. Það er algjörlega óhugsandi, það er í raun og veru vonlaust að skipuleggja tíma sinn þegar engin er starfsáætlunin. Mér þætti það í það minnsta kurteisi að koma með starfsáætlun þannig að við getum alla vega einhvern veginn (Forseti hringir.) skipulagt tímann.