144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég sá undir bleikar iljar hæstv. menntamálaráðherra hér fyrir nokkrum mínútum. Ég fagnaði því að hann skyldi hafa komið hingað til fundar vegna þess að þegar þessari umræðu sleppti, fyrir um það bil röskri viku, þá var hátt kallað eftir afstöðu hans. Ástæðan er vitaskuld sú að það þarf að ganga eftir því við hæstv. ráðherra hvers vegna hann flytur ekki sjálfur frumvarp um tónlistarkennslu og fjármögnun tónlistarskóla í landinu. Hvernig stendur á því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra lætur allsherjar- og menntamálanefnd flytja frumvarp sem er redding til þess að bjarga því sem bjargað verður og koma í veg fyrir að það verði gjaldfall, jafnvel gjaldþrot fjölda tónlistarskóla?

Hæstv. ráðherra hefur líkast til haft tvö ár til þess að koma fram með sína stefnu og sýn á þennan málaflokk. Það hefur hann ekki gert. Það glittir að vísu í það úr langri fjarlægð að hæstv. ráðherra sé búinn að koma sér niður á stefnu í málinu. Hún er hins vegar þess eðlis að hún virðist ekki þola dagsljós eða birtuna í þingsölum vegna þess að hún hefur ekki verið kynnt fyrir þingmönnum. Ég gekk mjög ríkt eftir því í andsvörum við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hér fyrir tíu dögum, þegar hún af miklum skörungsskap mælti fyrir þessu frumvarpi, að það kæmi algerlega skýrt fram hver framtíðarstefnan væri í þessu máli. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, framsögumaður nefndarinnar sem flytur þetta mál sameiginlega, sagði þá að þetta mál væri redding. Ég ætla að leyfa mér að endurtaka það sem annar þingmaður sagði um þetta mál og vona að ég gangi ekki of nærri hinum fínni blæbrigðum smekks hæstv. forseta, en viðkomandi hv. þingmaður kallaði það skítareddingu. Það er auðvitað mála sannast. Þetta er skítaredding og ekkert annað.

Á sínum tíma var gert ákveðið samkomulag á millum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í landinu um það hvernig ætti að taka á kreppu sem upp var komin vegna þess að sveitarfélögum var féskylft að standa straum af rekstri tónlistarskóla. Á þeim tíma var gert samkomulag. Það fól í sér að lagðar voru til málaflokksins 480 millj. kr. í tónlistarnám. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, sem þá var hæstv. menntamálaráðherra, hafði forgöngu að því. Af þessu voru 250 millj. kr. nýjar en sveitarfélögin tóku á sig verkefni til endurgjalds, bæði ólögbundin og lögbundin, upp á 230 millj. kr. Með öðrum orðum, fyrri ríkisstjórn lagði til nýjar 250 millj. kr. í þetta mál. Því var fagnað verulega af þeim sem unna tónlistarskólum, bæði foreldrum og börnum sem sækja þessa skóla. Við sem höfum lengi verið á dögum og jafnvel átt heima víðar en bara í Reykjavík 101 vitum að tónlistarskólarnir á landsbyggðinni eru jafnvel aflvaki, uppspretta og helsti kjarni menningarlífsins. Það er enginn þáttur sköpunar sem laðar að sér jafn marga til þátttöku og tónlistarskólarnir. Það er hægt að nefna staði á landinu þar sem segja má að tónlistarskólarnir hafi staðið undir menningarlegum orðstír viðkomandi byggðarlaga. Ég nefni bara minn gamla heimabæ Ísafjörð sem löngum og áratugum saman var einn helsti menningarstaður á landinu vegna þess að þar var mjög öflugur tónlistarskóli.

Ef ekki er hægt að setja þetta á fastan, varanlegan grunn þá óttast ég að það sé verið að fella stoðir undan tónlistarskólunum og að þeir eigi sér einfaldlega ekki framtíð. Eins og staðan er nú þá er það algjörlega ljóst að ef ekki kemur til samþykktar á því frumvarpi sem hér er lagt fram sem redding þá blasir við gjaldfall og hugsanlega gjaldþrot margra þessara skóla. Þess vegna er eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra flytji þetta frumvarp miklu frekar en nefndin sem tekur það að sér til þess að bjarga hæstv. ráðherra frá sneypu og skömm og fyrir bænarstað sveitarfélaganna. Mér finnst að minnsta kosti lágmark að hæstv. menntamálaráðherra komi hingað í salinn og geri okkur grein fyrir því hvernig stendur á því að hann hefur enga stefnu lagt fram í þessum málum sem hið háa Alþingi hefur fengið að njóta.

Ég rifja það upp að hið upphaflega samkomulag var gert árið 2011 þegar til varð hið svokallaða vistarband. Á þeim tíma, í kjölfar kreppu, treysti Reykjavíkurborg sér ekki til þess að taka við nemendum til tónlistarnáms í tónlistarskólum sem hún borgaði fyrir án þess að með þeim væri greitt. Það var fyllilega skiljanleg afstaða. Ríkisstjórnin á þeim tíma skildi það og þess vegna var ráðist í þessar breytingar á lögum árið 2011, sem leiddu til þess að þá komu 250 nýjar milljónir í málaflokkinn. Þetta samkomulag hefur síðan verið framlengt og það er verið að framlengja það enn einu sinni.

Á sínum tíma, í lok síðasta kjörtímabils, var þáverandi hæstv. menntamálaráðherra búinn að móta nýja stefnu og hafði kynnt hana. Það var stefna sem hefði verið hægt að byggja á til frambúðar. Fyrr var ekki hægt að gera það, m.a. vegna þess að það skorti upplýsingar. Sá gagnagrunnur sem tónlistarskólarnir byggðu á reyndist vanbúinn að því leyti til að það voru ekki réttar upplýsingar um fjölda nemenda þannig að sumir skólar fengu minna í sinn skerf en þeim bar í reynd. Stefnan var kynnt og enginn mælti á móti henni vorið 2013 þegar hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kynnti hana. Ekki getur hæstv. menntamálaráðherra skotið sér á bak við það að hann hafi ekki haft neina stefnu vegna þess að ráðuneytið var þá reiðubúið með þetta frumvarp. Hins vegar er það fullkomlega skiljanlegt ef hæstv. ráðherra vill fara einhverja aðra leið. En hann þarf þá að segja okkur hver sú leið er. Hann virðist ekki hafa haft krafta eða rými til þess að ganga frá stefnumótun á þessu sviði. Það er þess vegna sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hleypur undir bagga, tekur undir hornin með ráðherranum og bjargar honum í þessu máli. Nefndin gerir það, eins og ég sagði hér áðan, í orðastað sveitarfélaganna í landinu til þess að koma í veg fyrir neyðarástand í tónlistarskólum.

Ég er þakklátur hv. formanni nefndarinnar, Unni Brá Konráðsdóttur, sem flutti þetta mál og sagði undanbragðalaust frá því hvernig staðan var. Ég tel hins vegar að við eigum heimtingu á að fá skýringu á því frá hæstv. menntamálaráðherra af hverju hann er ekki reiðubúinn með sína stefnu. Kann að vera, herra forseti, að það hafi verið ætlun hæstv. menntamálaráðherra, þegar sást glitta í stefnu sem var mjög umdeild, að bíða með kynningu á henni fram yfir það að Alþingi lyki störfum? Við áttum, eins og kom fram í umræðum um störf þingsins rétt áðan, að vera fyrir löngu farin héðan úr þingsölum. Var það þá sem hæstv. ráðherra ætlaði að kynna stefnu sína í þessum málum?

Staðreyndin er nefnilega sú að sú stefna sem hæstv. ráðherra hefur verið að kynna, samkvæmt óljósum fregnum úr fjölmiðlum, fellur ekki alls staðar í góðan jarðveg. Hún felur það í sér, herra forseti, að í reynd á að slá af tónlistarskóla á landsbyggðinni og nýta það fjármagn sem ríkið hefur lagt til þeirra til að koma á fót einum miðlægum framhaldsskóla í tónlistarnámi í Reykjavíkurborg. Þetta eru að minnsta kosti fréttirnar sem menn hafa fengið. Ef það er rangt finnst mér að hæstv. ráðherra eigi að hreinsa loftið og segja okkur frá því hvernig menn ætla að kljúfa þessi vandamál í framtíðinni.

Ég hef sagt að samhliða því sem ég tel að það sé rétt af þinginu, áður en það lýkur störfum fyrir sumarleyfi, að samþykkja þetta frumvarp þá sé ekki annað hægt en að hæstv. ráðherra komi og segi okkur frá því hvernig hann ætlar að haga stefnu sinni og ríkisstjórnarinnar gagnvart tónlistarskólum í framtíðinni.

Mér er að vísu ljóst að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um það hvaða stefnu hann hyggist fylgja í framtíðinni. Mér finnst það ekki nóg. Mér finnst að hæstv. menntamálaráðherra eigi fullt erindi hingað í þessa umræðu til að gera okkur ljósa grein fyrir því hvert hann hyggst feta með tónlistarskólana í framtíðinni. Núna þegar þingið kemur og bjargar málunum finnst mér sjálfsögð skylda og eðlileg krafa af minni hálfu sem þingmanns sem ber hag tónlistarskólanna fyrir brjósti, sem þekkir þá af eigin reynslu sem foreldri tveggja dætra sem hafa stundað nám með góðum árangri, og fyrir alla í slíkum skólum að fá að vita þetta.

Herra forseti. Er hægt að gera uppskátt um það hvort hæstv. menntamálaráðherra er í húsinu?

(Forseti (KLM): Forseti sér það á viðveruskrá að hæstv. menntamálaráðherra er ekki í húsi.)

Það er ákaflega miður, herra forseti. Ég ætla ekki að bregða af vana mínum og krefjast þess að hæstv. ráðherra komi hingað til fundarins nákvæmlega núna, en hitt vil ég segja skýrt að mér fannst það skjóta skökku við að sjá undir fölbleikar iljar hæstv. ráðherra um leið og þessi umræða hófst. Hæstv. ráðherra var staddur hér áðan við óundirbúnar fyrirspurnir og þetta mál er fyrst á dagskrá. Mér hefði fundist eðlilegt að hann væri hér og gerði þinginu grein fyrir stöðu þessara mála.

Að lokum, herra forseti. Það samkomulag sem var gert árið 2011 var gert til þess að bjarga mjög þröngri stöðu sem þá var komin upp. Það fól í sér að nýjar 250 millj. kr. komu til þess að standa straum af námi á miðstigi í söng, á framhaldsstigi í söng og hljóðfæraleik. Það bjargaði því sem bjargað varð fyrir tónlistarskólana þá. Síðan hefur þetta samkomulag verið framlengt. Síðan þá liggur það sömuleiðis fyrir að fyrri menntamálaráðherra var kominn fram með stefnu í málinu sem naut mjög mikils skilnings og vildar hjá forráðafólki tónlistarskólanna. Ég minnist þess ekki að nokkur einasti maður hafi mælt henni í mót. Þess vegna finnst mér að það sé eðlilegt að núverandi ríkisstjórn segi Alþingi og þeim sem standa á bak við rekstur tónlistarskólanna í landinu og nemendum sem stunda nám þar hvaða leið hún ætlar að fara í framtíðinni. Herra forseti. Svo það sé bara sagt upphátt, er það ætlan hæstv. menntamálaráðherra að leggja tónlistarskólana úti á landi bókstaflega af og búa til einn miðlægan tónlistarskóla í Reykjavík?

Nú er ég þeirrar skoðunar að ríkið þurfi að taka þátt í kostnaði við framhaldsnám í tónlist alveg eins og í öðrum námsgreinum. Ég tel að listnám eigi að standa jafnfætis öllu öðru námi. Ég hef ekkert á móti því og tel það góðra gjalda vert ef hæstv. ráðherra stefnir á það að búa hér til og byggja einn stóran skóla til þess að taka við nemendum og gera þá enn betri.

Ég sagði frá því í fyrri ræðum mínum að mætir menn eins og Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, einn af okkar framúrskarandi ávöxtum íslensku tónlistarskólastefnunnar, hefði um málið margt gott að segja. Ég ætla því ekki að loka á neitt fyrir fram, en hitt verð ég að segja, herra forseti, að ég mun aldrei fallast á að menn bókstaflega hætti að styrkja tónlistarskólana á landsbyggðinni.

Ég vil að endingu leggja áherslu á það, herra forseti, að um leið og ég lýsi stuðningi mínum við þetta frumvarp þá tel ég að það sé ekki hægt að samþykkja það fyrr en hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt spilin á borðið og sagt okkur hvernig hann ætlar að leysa þetta mál í framtíðinni. Ætlar hann að leysa það með því að verða sér úti um fjármagn með því að slá af fjárveitingar til tónlistarskólanna á landsbyggðinni? Það finnst mér ekki koma til greina.