144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[16:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar síðustu orð hans. Auðvitað er þetta stórmál sem um ræðir. Það þarf að fara með það sem slíkt. Það þarf að kalla alla hagsmunaaðila að borðinu. Það þarf að reyna að skapa breiða pólitíska sátt og ætti nú ekki að vera erfitt í máli sem ég tel að sé í raun og veru kappsmál okkar allra þvert á flokka, sem er auðvitað að byggja upp og halda áfram að byggja upp fyrsta flokks tónlistarnám á Íslandi. Ég tek undir með hv. þingmanni, þeim orðum sem hann fór hér með í ræðu sinni um nauðsynina á því að rækta sköpunargáfuna. Það hefur stundum verið sagt að þau menntakerfi sem vilja sníða sig að nýrri öld, 21. öldinni, við köllum hana enn nýja, hún er að minnsta kosti enn allung, þau þurfa einmitt að leggja áherslu á sköpunarþáttinn. Það er raunar gert í nýrri aðalnámskrá. En þessi orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar skutu mér í koll ákveðinni spurningu, sem er framtíðarsýn annarra greina, þ.e. ekki aðeins tónlistarnámsins heldur annarra listgreina. Ég velti því upp því að tónlistin á kannski dýpstu ræturnar fyrir utan ritunina sjálfa sem er auðvitað listgrein líka og er rótföst í hinu hefðbundna skólakerfi. Svo höfum við horft á aðrar listgreinar, dans, leiklist og myndlist sem eru meira á jaðrinum getum við sagt þegar kemur lengra upp í skólakerfið, í sérskólum. Það er auðvitað eitt af því sem mér finnst mikilvægt að við höfum til hliðsjónar þegar við ræðum framtíð tónlistarnáms og hvar nákvæmlega það á heima í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvernig það á heima, að við veltum því líka fyrir okkur hvort það kalli á auknar skyldur af hálfu til að mynda ríkisins þegar kemur að framhaldsstigi í myndlistarnámi, leiklistarnámi og öðru slíku. Raunar eru breytingarnar sem við erum að sjá þar þær að framhaldsskólarnir, hinir hefðbundnu sem við köllum svo, eru að taka það upp. Ég nefni sem dæmi Fjölbrautaskólann í Garðabæ sem er kominn beinlínis með sviðslistabraut sem er listnámsbraut. (Forseti hringir.) Það væri kannski þessi fagra framtíðarsýn sem hv. þingmaður rakti hér áðan þar sem skólarnir allir bjóða upp á eitthvað slíkt, meira skapandi nám en hinar greinarnar, (Forseti hringir.) herra forseti.