144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka af öll tvímæli um það að ég tel ekki að fjarvera hæstv. ráðherrans stafi af því að honum sé ekki annt um málaflokkinn. Annað hvort væri nú, maðurinn hefur farið til náms við móðurkirkjuna í hinni eilífu borg í hljóðfæraslætti og leggur að sjálfsögðu alúð gagnvart tónlistinni. Miklu fremur má kannski segja að hæstv. ráðherra hafi á undanförnum missirum orðið eins konar leiksoppur þeirra sem ráða í niðurskurðarnefndinni, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, og þau virðast eiga alls kostar við hann. Við höfum séð það að hann hefur komið hálfstrípaður af fundum þeirrar nefndar í fjármálalegu tilliti. Ég held því miður að hæstv. ráðherra hafi skort afl til þess að ná nægilegu fjármagni til þess að slá varanlegum stoðum undir tónlistarkennsluna.

Herra forseti. Svo má velta því fyrir sér af hverju hæstv. ráðherra kemur ekki til fundar við þingið til þess að ræða þetta. Nú undirstrika ég það að þetta mál er flutt af allsherjar- og menntamálanefnd af miklu örlæti hennar þannig að honum ber ekki þingleg skylda til þess, en honum ber pólitísk skylda til þess eftir að hafa verið hér á ferli um landið, gapandi framan í fólk og fjölmiðla um það hvers konar stefnu hann ætlar sér að reka og fengið ansi harðar undirtektir. Þegar hann er farinn að tala um stefnuna í svo mikilvægum málaflokki utan Alþingis þá er það réttmæt krafa að hann komi líka hingað og stigi úr sínum fílabeinsturni inn til okkar venjulegra þingmannsræfla og segi okkur frá því hvað þar er að gerast.

En gæti skýringin verið sú að vegna þess í hversu grýttan jarðveg þessi frækorn nýrrar stefnu féllu sé hann enn einu sinni byrjaður að hugsa málin upp á nýtt, sé horfinn jafnvel frá því og hafi enga stefnu? Gæti það verið skýringin, hv. þm. Helgi Hjörvar?