144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið. Ég held að hæstv. ráðherra sé alveg ráðalaus því að það verður auðvitað að útskýra fyrir áhorfendum að frumvarp sem flutt er af allsherjar- og menntamálanefnd eins og hér er gert þarf ekki að fara í kostnaðarmat í fjármálaráðuneytinu, fá samþykki í ríkisstjórn og afgreiðslu í þingflokkum stjórnarflokkanna. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gengið illa að sækja mál sín í þessu stjórnarsamstarfi, einkanlega fjármuni til þeirra hluta sem gera þarf í menntamálum. Það læðist að manni sá grunur að þessi leið sé farin vegna þeirrar þröngu stöðu ráðherrans. Kannski ekki síður þegar maður sér að í þessi tiltölulega litlu útgjöld, sem ættu ekki að vefjast fyrir heilli ríkisstjórn, eru sóttir fjármunir í annað ráðuneyti og einmitt ráðuneyti sem líka hefur gengið illa að sækja fjármuni til forustu fjárlaganefndar og í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, en það er frá hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttur. Ég vil vegna þess að hv. þingmaður er margreyndur ráðherra og alþingismaður inna hann eftir því hvort hann minnist þess, af því að ég hef nokkrum sinnum séð fjármunum reddað með þessum hætti í viðkvæma málaflokka á síðustu stundu hér við lok þings, það er ekki algjör nýlunda þótt það sé fremur sjaldgæft, að slíkt mál hafi komið inn þar sem síðan fjármunirnir til þess eru sóttir til annars ráðherra og annars málaflokks. Ég að minnsta kosti minnist þess ekki að það hafi áður verið gert.