144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað og setja okkur aðeins betur inn í þá vinnu sem stendur yfir við framtíðarfyrirkomulag tónlistarnáms. Ég ætla nú að byrja á því að segja að ég er sammála hæstv. ráðherra, svo það sé sagt hér, um skilning hans á samkomulaginu frá 2011. Því var ætlað að efla tónlistarnám, því var ætlað að renna til stuðnings framhaldsnámi eða námi á framhaldsstigi í tónlist. Ætlunin var ekki að ríkið tæki verkefnið yfir og því var bagalegt hvað sveitarfélög túlkuðu það mismunandi. Það er mikilvægt að það sé skýrt til lengri tíma.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út frá orðum hans um framtíðina: Skil ég það rétt að sá vinnuhópur sem nú er starfandi í ráðuneytinu eða á vegum hæstv. ráðherra og er að móta tillögur til framtíðar sé með þá framtíðarsýn að hugsanlega styðji ríkið einn skóla á höfuðborgarsvæðinu sem einbeiti sér að framhaldsstigi en samhliða því muni ríkið áfram styðja nám á framhaldsstigi í kringum landið? Ef þetta er réttur skilningur, ef þetta kemur til greina, mundi það þá ekki kalla á aukna fjármuni af hálfu ríkisins? Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það kalli jafnvel á viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um breytta verkaskiptingu á einhverjum öðrum vígstöðvum? Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra kemst yfir að svara þessu en mig langar þó að bæta við: Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta muni eingöngu eiga við um nám í tónlist, að við tökum það út fyrir sviga með þessum hætti, eða telur hann að þetta muni líka hafa áhrif á nám í öðrum listgreinum sem eru auðvitað með öðrum hætti?

Ég nefndi það í ræðu áðan að við sæjum til að mynda mikla framþróun í námi í sviðslistum innan hins hefðbundna framhaldsskóla. Við getum nefnt Fjölbrautaskólann í Garðabæ og ég veit að fleiri skólar eru að fikra sig á þeirri braut. En ég spyr einkum um það sem varðar tónlistarnámið.