144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það vakna hjá mér viðbótarspurningar. Í fyrsta lagi, ef hæstv. ráðherra sér fyrir sér að annars vegar miðist stuðningur ríkisins við nám á framhaldsstigi í tónlist úti um land og hins vegar einhvern slíkan skóla á höfuðborgarsvæðinu, hefur hæstv. ráðherra séð fyrir sér að aðrir skólar á höfuðborgarsvæðinu sem eru með framhaldsstig í tónlist yrðu ekki hluti af þessum sameinaða skóla? Það er nú helsta spurningin sem vaknar.

Hina spurninguna langar mig að leggja hér fram af því að hæstv. ráðherra boðaði að þessi vinna stæði yfir, frumvarp væri í smíðum. Verulegur grunnur þess hlýtur að liggja fyrir því að þetta hefur verið talsvert lengi til skoðunar í ráðuneytinu, lengur en ég var þar því að forveri minn í embætti hóf þessa vinnu. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta frumvarp komi hingað inn næsta haust? Það er auðvitað mikilvægt að við fáum skýra sýn svo að við séum ekki oftar að afgreiða mál á borð við það sem við erum að ræða hér.