144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns vil ég bara segja þetta: Þegar kemur að samskiptum ríkisvaldsins annars vegar og hins vegar hér á þinginu við sveitarfélögin þá hljótum við að eiga samtal við samtök þeirra, Samband íslenskra sveitarfélaga. Við getum ekkert annað en bara vonað að þeir sem þar tala og tala fyrir hönd þeirra samtaka hafi fullnægjandi umboð fyrir sinni stefnu. Það getur ekki gengið að við þurfum að tala við öll sveitarfélög í landinu fyrir hvert einasta mál. Samtökin tala fyrir hönd sveitarfélaganna. Það eru þau sem snúa sér til okkar með þetta mál til þess að biðja um þessa lausn, hún á sér þann uppruna sem kemur fram í greinargerðinni. Ég held að við verðum að horfa til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga leggur málið upp með þessum hætti.

Hvað varðar síðan þann sjóð sem hv. þingmaður nefnir, varasjóð húsnæðismála, þá ætla ég ekki og er ekki í nokkrum færum til að taka afstöðu til þess máls. Ég þekki ekki málefni þess sjóðs en ég geri mér í hugarlund og geng reyndar út frá því sem vísu að þeir sem hafa mælt með þessu af hálfu sveitarfélaganna gjörþekki þann málaflokk og viti hvað þar er við að eiga. Ef sú staða kemur upp að bregðast þarf við ef eitthvað gerist þar þá verður væntanlega eitthvert svigrúm til þess að gera það.

Ég vil nefna það að gefnu tilefni og árétta að það sem er verið að hugsa með þennan skóla, ef af verður, er ekki að allir geti gengið í hann. Þetta yrði skóli sem væri afmarkaður og hugsaður fyrir þá nemendur sem eru líklegir til þess að leggja tónlist fyrir sig sem atvinnu. Það þýðir að hann verði ekki opinn og menn þurfi að þreyta inntökupróf til að komast inn í slíkan skóla. Það sem ég vil segja til viðbótar er að ef nemandi úti á landi, á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar er í sínum heimaskóla en vill geta haft tengingu við þennan skóla og uppfyllir inntökuskilyrðin þá getur maður séð fyrir sér kerfi þar sem viðkomandi nemandi geti áfram verið í sinni heimabyggð, stundað nám í framhaldsskólanum eða tónlistarskólanum sínum og verið í sambandi við þennan skóla sem mundi þá efla nám þess einstaklings.