144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar.

Hvað varðar tekjuskiptingarsamkomulagið og verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þá er bara augljóst í þessu máli að það samkomulag sem var gert 2011, sem fól raunverulega í sér það að bæta við fjármunum, dugar ekki. Það þarf að skrifa það miklu nákvæmar út, það þarf að skilgreina aðkomu ríkisins að þessu vegna þess að samkvæmt því fyrirkomulagi sem við höfum haft alla tíð frá 1989 er þetta alfarið á verksviði sveitarfélaganna. Það er alveg nýtt í raun og veru, þ.e. frá 2011, að ríkið komi með fjármagn inn í þetta skólahald. Ég tel og það hefur komið skýrt fram hjá fyrrverandi hæstv. ráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að það fyrirkomulag, það samkomulag, hefur verið túlkað með öðrum hætti en ríkið lagði upp með. Þess vegna þarf að skýra þetta.

Ég hef bent á að fyrir liggur álit frá umboðsmanni Alþingis sem snýr meðal annars að því sem er hið einingabæra nám sem menn taka á framhaldsstigi í tónlistinni og hvernig ríkið ætti að koma þar að. Það gæti verið ákveðinn lykill að þessari lausn sem nær þá yfir allt landið, ekki bara yfir höfuðborgarsvæðið, og svo ég taki sem dæmi: Nemandi sem væri í skóla, og þá kemur að þriðju spurningu hv. þingmanns, á framhaldsstigi í Reykjavík en ekki í þeim skóla sem við erum að ræða um hér en væri til dæmis að fá það nám metið til eininga, þá væri hægt að hugsa sér að það kæmi einmitt fjárframlag frá ríkinu þess vegna. Þar fyrir utan er líka hægt að hugsa sér að ríkið sé með skilgreinda fjármuni til að setja þessu til viðbótar inn í þetta skólastig. Þá kemur auðvitað upp spurningin: Væri kannski ekki hreinlegra þá að gera einhverjar breytingar á tekjuskiptingunni á milli ríkis og sveitarfélaga ef við erum að breyta því fyrirkomulagi sem liggur fyrir frá 1989 að þetta sé verkefni alfarið sveitarfélaganna?

Hvað varðar það hvort menn geti komið með frumvarp þá held ég að hægt sé að gera það. Það á að takast. Þess vegna er þessi nefnd sett upp. Þess vegna eru tveir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í þeirri nefnd til þess einmitt að eiga samtal við okkur um þessa þætti.