144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlýtt á andsvar hv. þingmanns þá er ég sjálfur farinn að efast um þetta allt saman úr því að honum leist svona vel á það. Ég held þó að við séum nú að skilja þetta nokkurn veginn sama skilningi. En ég vil þó ítreka að þetta fyrirkomulag sem við horfum á, við erum enn með það á teikniborðinu. Það á eftir að útfæra allar þessar hugmyndir og það eiga sennilega eftir að koma fleiri hugmyndir um það hvað er best að gera. Aðalatriðið er að áður en kemur að því að við flytjum frumvarp þarf þetta allt saman að liggja fyrir og menn þurfa að vera búnir að skilgreina hvað það er sem ríkið hefur verið að gera og hvað það er sem sveitarfélögin eigi að gera. Um það snýst þetta mál augljóslega.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á ágæta grein sem tveir fræknir píanóleikarar skrifuðu fyrir skömmu í Fréttablaðið, Víkingur Heiðar Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon, (Gripið fram í.) ágæta grein, þar sem þeir bentu einmitt á mikilvægi þess að við tökum til gagngerrar endurskoðunar akkúrat þá spurningu hvernig við menntum og þjálfum þá sem ætla að leggja fyrir sig tónlist sem atvinnumennsku. Það er meðal annars það sem við erum að skoða í þessu. Við ætlum því að reyna að slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar að leysa úr þessum vanda sem augljóslega er uppi og þeim vanda sem snýr að verkaskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þessu námi og hins vegar að búa til eins góða leið og við mögulega getum (Forseti hringir.) fyrir þá sem ætla sér að fara þessa leið óháð því hvar þeir búa á landinu. Með því að nálgast þetta svona, þ.e. að svona skóli yrði í Reykjavík en hefði síðan skyldur gagnvart þeim sem búa annars staðar á landinu en uppfylla skilyrðin, (Forseti hringir.) þá held ég að við séum að gera mjög mikið gagn.