144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna því að hæstv. menntamálaráðherra skyldi koma til umræðunnar og ég held að það hafi komið í ljós að það var alveg bráðnauðsynlegt. Það er að sjálfsögðu skylt að hafa það sem sannara reynist og ekki ástæða til að hafa óþarfaáhyggjur af áformum hæstv. menntamálaráðherra og að nokkru leyti hafa mínar áhyggjur minnkað við það sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það er vel. Mér finnst reyndar að hæstv. ráðherra mætti taka þetta til eftirbreytni og gera það oftar að upplýsa Alþingi fyrr á fyrri stigum og betur um ýmislegt sem hann er að bardúsa í ráðuneytinu þannig að við þyrftum ekki stundum að frétta af því eftir á og eftir krókaleiðum hvað til stendur með framhaldsskóla á landsbyggðinni eða háskóla í Norðvesturkjördæmi eða hvað það nú er annað. Því miður hefur það borið aftur og aftur að okkur þannig að hæstv. ráðherra er farinn af stað með einhver áform í ráðuneyti sínu, skrifar bréf, boðar eitthvað gagnvart framhaldsskólunum eða öðrum aðilum og virðist ekki líta svo á að Alþingi komi það mikið við hvernig stefnan er mótuð í þessum málaflokki nema að því er varðar fjárveitingar. Þá er stýritækið í menntamálum að þessu leyti í raun orðið meira spurningin um fjárveitingar og hvernig farið er með merkingar í fjárlögum en að ráðherra leggi á borðið og ræði t.d. við Alþingi útlínur í menntastefnunni og menntamálum.

Tónlistarnámið sem hér er undir er afar mikilvægt og það hefur verið gleðilegt að sjá hvað Ísland hefur tekið stórstígum framförum á þessu sviði á síðustu hálfri öld eða hvað við getum sagt og enginn vafi á því að tónlistarskólarnir og menntað fólk í tónlist sem við höfum flutt inn í landið í stórum stíl og hefur haft starfsvettvang í tónlistarskólunum á mjög stóran þátt í því. Ég held að það hafi skapað þá grósku sem er í tónlistarlífi Íslendinga í mjög ríkum mæli.

Þetta er líka ákveðið jafnréttismál. Það þekki ég nú hafandi alist upp í byggðarlagi þar sem alls ekkert tónlistarnám var í boði. Ég sakna þess enn að hafa ekki átt þess kost að stunda slíkt nám, til hvers sem það hefði svo sem leitt. (Gripið fram í.) Ég ætla nú ekki að halda því fram að hæfileikarnir hafi verið ómældir, en ég hef hins vegar notið þess að geta fylgst með mínum fara í gegnum tónlistarskóla og þekki þar af leiðindi líka svolítið af eigin raun hlutskipti fjölskyldna sem þurfa að reiða sig á tónlistarnám í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi og hef aðeins orðið var við flækjur undangenginna ára í þeim efnum í samskiptum sveitarfélaganna og svo núna ríkisins og sveitarfélaganna.

Ég verð að segja alveg eins og er að það eru vonbrigði og undrunarefni í senn að sú staða skuli vera komin upp sem raun ber vitni að hér er hv. allsherjar- og menntamálanefnd að taka að sér það, ég vil næstum því leyfa mér að segja, virðulegur forseti, skítverk, að bjarga þessu máli á þessu ári að einhverju leyti fyrir horn og þarf að fara miklar fjallabaksleiðir í þeim efnum. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sem sagt verið þannig strand með málið og velur þann kost að leita til nefndarinnar sem tekur það að sér eftir að það er komið í hreinar ógöngur. Sjálfsagt höfum við flest ef ekki öll fengið, annaðhvort á fundum eða í gegnum póstsamskipti, upplýsingar um stöðuna hjá ýmsum tónlistarskólum sem er grafalvarleg. Það er auðvitað það sem gerir þetta svo undarlegt og dapurlegt í senn að það sem menn voru að reyna að gera 2011 eins og hér hefur komið ágætlega fram hjá núverandi og fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherrum, að reyna að efla þetta nám með umtalsverðum nýjum fjármunum eða þó nokkrum nýjum fjármunum, að fáeinum árum síðar, fjórum árum síðar, þá er málið í ekki minni klessu ef ekki bara í verra ástandi en það var þarna. En ber þó að taka fram, herra forseti, að ekki voru nú þessi samskipti stjórnsýslustiganna búin að vera vansalaus áður. Er það ekki þannig og er það ekki rétt munað, alla vega var mér selt þetta þannig sem fjármálaráðherra á sínum tíma, að það væri verið að reyna loksins að taka á áralöngu klúðri í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem menn höfðu ýtt á undan sér og ekki getað tekið á þrátt fyrir allar fínu jónsmessunefndirnar og samstarfstækin sem ríki og sveitarfélög eiga að hafa sín á milli. Það hafði verið endalaust vandræðamál hvernig ríkið kæmi að því eða hvernig yrði búið um nám á æðri skólastigum eða framhaldsstigi í tónlist eftir að segja má að sæmilegt ástand hafi smátt og smátt skapast hvað varðar námið á grunnstiginu, enda ekki deilt um að það sé verkefni sveitarfélaganna. Þar gilda tiltölulega einfaldar reglur sem ég held að séu komnar í fastmótað form; ef nemandi stundar nám annars staðar en í sínu lögheimilissveitarfélagi þá er fastur rammi utan um það sem lögheimilissveitarfélagið greiðir í það viðfangsefni, þarf að vísu árlegt samþykki og uppáskrift viðkomandi sveitarfélags, en yfirleitt gengur það greiðlega eftir.

Nú er ég ekki í smáatriðum inni í þessu og hér í salnum eru bæði fyrrverandi og núverandi hæstv. menntamálaráðherra sem kunna það betur en ég hélt að meiningin væri að þegar kæmi að náminu upp á framhaldsstiginu kæmi einhvers konar aðkoma ríkisins í staðinn fyrir aðkomu lögheimilissveitarfélagsins, að minnsta kosti að verulegu leyti, ef það væri annað en þar sem námið er stundað. Það tengist þeirri umræðu um skóla í Reykjavík sem þjóni einhverju miðlægu hlutverki hjá ríkinu. Ég ætla ekkert að dæma þá hugmynd til dauða fyrir fram eins og hún er hér kynnt, en eins og hún gat litið út í byrjun þá hljómaði ekki vel ef ríkið ætlaði að draga algerlega að sér hendur í þessum efnum og bjóða bara upp á einn skóla í Reykjavík og enga aðra möguleika til náms á þessu stigi. Þá yrðu sömu vandræðin uppi í samskiptum sveitarfélaga annars staðar í landinu en í Reykjavík og/eða að nemendur af landsbyggðinni sem uppfylltu kröfur til að fara í slíkt nám yrðu að gjöra svo vel og koma hingað til Reykjavíkur í það nám. Auðvitað er það ekki framtíðarfyrirkomulag sem við getum með neinu móti sætt okkur við. Ég held að það sé svo borðleggjandi og augljóst, sérstaklega þegar kemur að landsbyggðinni, að það er mikilvægt að nýta alla þá möguleika sem þar eru og efla þá, draga úr því að menn þurfi að sækja þetta nám um mjög langan vel, styrkja einingarnar sem til staðar eru með því að samþætta þetta í öflugum tónlistarskólum o.s.frv.

Auðvitað semja menn ekki fyrir fram úr ræðustól Alþingis um fjármuni eða annað, en ég verð að segja eins og er að ef það er það sem þarf til að koma þessum málum í sæmilegt skikk þá held ég auðvitað að ríkið eigi að vera tilbúið til þess að leggja í púkkið. Úr því að hægt var að skafa upp 250 milljónir af nýjum peningum árið 2011 og ekki uxu þeir á trjánum þá, ekki var nú svo komið enn þá, mér skilst að nú sé allt brostið á með góðæri og gullöld og gleðitíð, hæstv. forsætisráðherra segir að minnsta kosti af og til að nú sé loksins orðið eitthvað til skiptanna, gott og vel, þá ætti ríkið að vera sæmilega rausnarlegt í því núna. En ég er algerlega sammála því að það þarf að vera á grundvelli einhvers fyrirkomulags sem búið er að ná vel utan um og reyna auðvitað eins og kostur er að afstýra deilum og öðru slíku. (Gripið fram í.) Já, já, það hefði örugglega verið hægt að ganga enn betur frá þessu þarna 2011, þetta var erfið fæðing eins og oft er. Það var reyndar reynt að taka svolítið til í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í leiðinni og færa yfir og hreinsa verkaskiptinguna í nokkrum tilvikum og sumt af því tókst ágætlega. Sveitarfélögin tóku þá alveg við einhverjum leifum af hlutum sem hafði dagað upp eða orðið eftir hjá ríkinu og auðvitað var það áfangi á langri leið að gera þessi samskipti, tekju- og verkasamskipti ríkis og sveitarfélaga, skilvirkari. En ég kaupi það sem sagt ekki að þetta þurfi að sigla í strand núna á árinu 2015 úr því að var þó hægt að komast þetta af stað á árinu 2011 eins og þá var erfitt í ári.

Ég vil nefna eitt í þessu frumvarpi, sem snýr kannski ekki sérstaklega að hæstv. menntamálaráðherra nema að því marki sem hann hafi sem ráðherra í ríkisstjórn átt aðild að því samkomulagi, sem er þessi undarlega aðferð að grípa til 30 millj. kr. úr varasjóði húsnæðismála. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér er meinilla við það. Mér er alveg meinilla við það, sérstaklega ef það er undanfari þess að varasjóður húsnæðismála verði lagður niður. Það tel ég ekki ganga upp. Má ég þá aftur minna á og biðst forláts, virðulegi forseti, á að rifja upp dapurlega tíma á botni kreppunnar, að varasjóði húsnæðismála var haldið á lífi í gegnum alla kreppuna. Af hverju var það? Jú, það var vegna þess að menn vildu að hann væri til staðar og það gætu þess vegna orðið meiri fjármunir í hann en minni þegar betur færi að ára. Annað er ekkert jafnræði gagnvart þeim sveitarfélögum sem hér eiga í hlut. Menn settu upp þetta kerfi á sínum tíma til að aðstoða sveitarfélög sem voru föst í mjög erfiðri stöðu með mikið af félagslegu húsnæði á svæðum þar sem markaður var mjög lítill eða jafnvel bara alls ekki til staðar fyrir húsnæði, það var sett upp til að aðstoða þau við að losa um þá stöðu með því að mæta mismuninum að einhverju leyti í gegnum sjóðinn á milli áhvílandi lána og markaðsverðs. Sumum sveitarfélögum á sumum svæðum tókst að vinna niður þennan vanda, yfirleitt í sveitarfélögum þar sem einhver svolítill markaður er til staðar, þannig að það er hægt að selja íbúðirnar fyrir eitthvað. En annars staðar voru einfaldlega ekki aðstæður til þess og hafa kannski ekki verið fyrr en þá jafnvel núna. Hlut sveitarfélaganna eða örlögum sveitarfélaganna í landinu er því mjög misskipt í þessum efnum, allt frá sveitarfélögum með gríðarlega hátt hlutfall svona húsnæðis, upp undir 30% þekki ég dæmi um, sem hafa náð að selja að mestu eða jafnvel öllu leyti það sem þau vilja selja, halda kannski eftir nokkrum íbúðum til að geta mætt tímabundinni þörf, yfir í önnur sem hafa lítið komist áfram og sitja uppi með allan stabbann. Eiga þau þá algerlega að draga stutta stráið ef varasjóði húsnæðismála verður stútað? Það væri augljóslega ekki sanngjarnt.

Þessi vandi hefur unnist mikið niður þannig að við erum ekki að tala lengur um óskapleg ósköp í þessum efnum. Ég giska á að þetta séu um tíu sveitarfélög þar sem er eitthvað teljandi eftir, en í nokkrum tilvikum umtalsvert. Það væri algerlega fráleitt að mínu mati að ætla að skilja þau sveitarfélög algerlega ein eftir. Sums staðar eru þetta nágrannasveitarfélög þar sem atvinnuástand hefur kannski verið betra á einum stað og sæmileg íbúaþróun. Annars staðar var erfiðara á þessu árabili þegar sjóðurinn var virkur, en nú er kannski aftur að opnast aðstæður til þess að fara að hreyfa þetta á markaði. Þá finnst mér alveg einboðið að það eigi að gera það.

Má ég svo frábiðja mér þennan venjulega róg um það hvers konar ægilegt böl það hafi verið að sveitarfélög gátu byggt í félagslega húsnæðiskerfinu á árabili og benda mönnum á þá augljósu staðreynd að þau eru nú mörg byggðarlögin á landsbyggðinni sem lifa á þessu húsnæði í dag einfaldlega vegna þess að þetta er eina húsnæðið sem er af þeim toga og er yngsta húsnæðið á viðkomandi svæðum og í besta ástandinu. Ekki væri staðan betri ef þetta húsnæði hefði aldrei verið byggt. Það er vissulega rétt að þegar aðstæður þróuðust með hagstæðum hætti þá voru aðstæður á fasteignamarkaði ekki þannig að þetta húsnæði héldi fullu verðgildi o.s.frv., en íbúðirnar eru til staðar og í langflestum tilvikum eru þær nýttar að fullu þótt þær hafi ekki fram undir þetta selst á háu verði.

Mér finnst að það verði að gefa einhver svör áður en við botnum þetta mál um varasjóð húsnæðismála. Kannski getur formaður allsherjar- og menntamálanefndar bætt einhverju við í þann sarp, ávísun á hvað er þessi undarlega leið að seilast inn í varasjóð húsnæðismála og reyta þaðan út 30 milljónir á þessu ári. Mér finnst þetta afar klúðurslegt og breyta engu um þótt sveitarfélögin hafi látið sig hafa það eins og mér skilst að standa svona að þessu af því það sé enn brýnna að taka á vanda sem uppi er í tónlistarskólamálum.

Virðulegur forseti. Ég endurtek að það var gagnlegt að fá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til umræðunnar og vonandi getur hann verið með okkur áfram þangað til henni lýkur þannig að komi upp frekari spurningar og álitamál þá sé hægt að fá við þeim svör.