144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, en samkomulagið getur nú væntanlega tekið breytingum. Ég veit ekki hvort hægt er að líta svo á að það sé eitthvað endanlegt í þessum efnum. Ef ég man rétt þetta með varasjóðinn var það nú líka þannig að honum voru ætlaðar einhverjar tekjur. Var ekki klipið af einhverju sem myndar annars vegar tekjustofn frá sveitarfélögunum í þann sjóð? Og hins vegar lagði svo ríkið beint inn í hann árlega einhverja smáfjárhæð til þess að halda honum á lífi að því leyti. Um þetta var að minnsta kosti þæft á árunum sem ég kom að þessu. Auðvitað er það enginn héraðsbrestur þó að þetta sé gert í eitt skipti á þessu ári ef það er ekki ávísun á eitthvað annað og verra í framtíðinni með sjóðinn. Ég væri spenntastur að heyra um hvað er þá fram undan í þeim efnum án þess að ragi sérstaklega upp á mennta- og menningarmálaráðherra. Það væri væntanlega frekar félags- og húsnæðismálaráðherra sem ætti að svara fyrir það, eða kannski formaður allsherjar- og menntamálanefndar sem stendur að því að flytja þetta frumvarp. Það eru þær upplýsingar sem ég er mest á höttum eftir.