144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að tónlistarnám er ákaflega mikilvægt og við höfum séð það að við eigum orðið mikið af mjög frambærilegu tónlistarfólki sem eykur á lífsgæði okkar að búa við svo ríkulegt tónlistarlíf, svo er það líka ágætisútflutningsafurð, ef við viljum líta á það í efnahagslegum stærðum.

Það sem kemur á óvart er að í fyrsta lagi skuli ráðherra ekki flytja málið sjálfur heldur allsherjarnefnd og sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að fjármögnunin á þessu 520 millj. kr. framlagi á meðal annars að koma úr varasjóði húsnæðismála. Skýringarnar sem eru gefnar eru þær að þetta sé það framlag sem sveitarfélögin hafi greitt inn á undanförnum árum. Samband íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta, „hefur lýst þeirri afstöðu að við núverandi aðstæður sé það brýnna verkefni að leysa vanda tónlistarskóla en að viðhalda greiðslum til varasjóðs húsnæðismála“. Nú getur vel verið að þetta sé afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hvaða rök fáum við fyrir þessu?

Nú er það þannig að varasjóðurinn heyrir undir velferðarnefnd. Við höfum lítið fjallað um málefni hans. Hann hefur ekki verið til vandræða ef svo má segja, þannig að hann hefur bara fúnkerað. En ég vil spyrja fyrrverandi fjármálaráðherra hvort hann telji þetta eðlilega ráðstöfun fjár og hvort hann telji að Alþingi eigi að láta sér setningu sem þessa duga til þess að samþykkja að nota sjóð sem er ætlaður til allt annarra hluta, nota hann til að fjármagna tónlistarnám, hversu göfugt sem það markmið kann að vera.