144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem umræðunni vindur fram er ég að verða pínulítið óörugg gagnvart þessu vegna þess að greinilegt er að hér er góður vilji til þess að reyna að bjarga einhverju sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki gengið í að ljúka á liðnum vetri þannig að nefndin er að hlaupa undir bagga með honum og reyna að rétta hans hlut vegna þrýstings frá sveitarfélögunum og líka vegna þess að hann þarf að standa undir gerðum samningum. Gott og vel.

Við erum líka með mörg önnur „akút“ mál sem maður hefði talið að væri mikilvægt að sinna, en þegar hægt er að sækja svona mikla fjármuni eins og hér eru undir með alls kyns brellum, eins og farið hefur verið ágætlega yfir hér í umræðunum, þá verður manni hugsað til annarra þátta. Tökum til dæmis túlkasjóð, sem er tómur og þýðir að þeir sem nýta táknmál sem sitt tjáningarform búa ekki við jafnt aðgengi að samfélaginu og aðrir á meðan sjóðurinn er tómur. Við getum horft á aðra málaflokka. Við horfum á Landspítala – háskólasjúkrahús, við horfum á stöðuna þar. Þar vantar tæki, þar vantar fjármuni til að borga fólki laun o.s.frv.

Maður verður dálítið hugsi yfir forganginum, líka þegar kemur að þeim þætti sem hv. þingmaður ræddi hér við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur áðan, þ.e. um varasjóð húsnæðismála. Þá veltir maður fyrir sér forgangsröðun þessara mála. Ég er alveg til í að hjálpa ráðherranum ef þetta hefur einhvern veginn dottið á milli hjá honum í vetur, en ég þarf þá líka að fá skýringu á því um leið hvað verður um varasjóð húsnæðismála. Það lítur út fyrir að hann þurfi ekki þessa fjármuni. Er þá verið að leggja hann niður? Er það liður (Forseti hringir.) í einhverju sérstöku plani varðandi félagslegt húsnæði? Síðan vil ég fá að vita um önnur (Forseti hringir.) brýn verkefni sem menn gætu talið að væru hugsanlega álíka „akút“ og þetta.