144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að málið verkar ekki traustlega á mann um samskipti þessara stóru aðila, ríkis og sveitarfélaga, að þetta skuli bera svona að, að koma hér í endann í raun og veru þegar komið er fram á sumar í þessu endemis klúðri. Í samkomulaginu 2011 eru settir fjármunir upp á 250 milljónir í viðbót inn í dæmið. Framlagið frá ríkinu er 480 milljónir, á móti taka sveitarfélögin á sig verkefni upp á 230. Svo er þetta framlengt 2014 og það rennur svo út, gildistími þess, núna á þessu ári, þannig að málið er allt í uppnámi. Hér er verið að skjóta aftur inn stoð undir það að sveitarfélögin geti haldið áfram þessum verkefnum þannig að ríkið reiði þá fram sínar 480 milljónir sem reyndar eru núna orðnar 520 millj. kr.

Inn í þetta allt saman er svo bætt 30 milljónum sem eru teknar af því sem sveitarfélögin tóku að sér að leggja fram í varasjóð húsnæðismála á grundvelli samkomulagsins 2011. Svona held ég að þetta sé, ef ég fer rétt með, í staðinn fyrir að ríkið hafi áður lagt sjálft beint inn í varasjóð húsnæðismála. Það eru þeir peningar sem sveitarfélögin segja núna að sé brýnna að ráðstafa í þetta, að bjarga þessu fyrir horn, en ég vil meina að sé ekki í sjálfu sér eitthvert einkamál sveitarfélaganna því að það er hluti af samkomulaginu um verkaskiptingu og kostnaðarskiptingu frá 2011. Niðurstaðan er sú að framlagið hverfur úr varasjóði húsnæðismála. Þess vegna finnst mér að við þurfum að fá skýrari línur í það áður en málið er botnað og nefndin verði þá að kalla þetta til sín aftur og fara yfir það ef fást ekki almennileg og skýr svör um það í þessum efnum.

Auðvitað er þetta allt saman búið að vera alveg yfirgengilegt, að þó ekki stærra mál en þetta skuli hafa vafist svona ofboðslega fyrir ríki og sveitarfélögum. Og þessi óeining sem uppi hefur verið og stífni í þessum efnum án þess að kenna einum eða neinum um er náttúrlega (Forseti hringir.) öllum til vansa að mínu mati sem að þessu hafa staðið undanfarin ár.