144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Takk fyrir þetta, virðulegi forseti. Ef maður flettir upp varasjóði húsnæðismála á netinu undir velferðarráðuneytinu þá kemur fram — ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekki mikið til hans áður en þessi umræða fór af stað — að eitt af hans hlutverkum sé til dæmis að veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Maður getur gert ráð fyrir að þetta eigi við um sveitarfélög úti á landi ekki síst og þá sveitarfélög sem hafa kannski átt undir högg að sækja og mikill brottflutningur hefur verið frá. Þá kemur fram að þetta er líka til þess að veita framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði o.s.frv. Þetta virðist því dálítið miða inn á sveitarfélög þar sem mikill flutningur hefur verið frá og töluvert af húsnæði stendur autt og sveitarfélögin hafi þurft að bera af því mikinn kostnað, ergo sveitarfélög úti á landsbyggðinni. Það virðist þá vera sem svo að menn séu að meta það þannig að (Forseti hringir.) þessi sjóður sé orðinn óþarfur og þessu verkefni lokið, eða hvað? Hvernig metur hv. þingmaður það?