144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að þetta þing virðist reka einhvern veginn hálfstjórnlaust áfram og forseti virðist vera búinn að afsala sér stjórn þess til forsætisráðherra leggjum við fram tillögu um nýja dagskrá vegna þess að sérstakar umræður frá þingmönnum hafa beðið frá því í janúar síðastliðnum. Til dæmis hefur beiðni til forsætisráðherra frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um umræðu um verðtryggingu beðið hér frá því í fyrri hluta febrúar. Þar sem forseti hefur ekki orðið við því að hér verði sett á starfsáætlun þar sem gert er ráð fyrir sérstökum umræðum teljum við mikilvægt að gerð verði breyting á dagskrá svo þær geti komist að og við getum átt hér samtal um brýnustu málefni.

Síðan er það skýrslan um málefni stöðunnar á vinnumarkaði. Það er alveg með ólíkindum að forsætisráðherra hefur ekki lagt í það að koma hér inn í þá tvo, þrjá mánuði sem við höfum óskað eftir umræðunni um það mál og það gengur auðvitað ekki að vera með svo huglausan forsætisráðherra að hann leggi ekki í að ræða þessi stóru mál í þingsalnum við okkur. Því leggjum við þetta til.