144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er það næsta sem kemst því að vera eins konar skipulag á þessu háa Alþingi nú til dags. Þingið þarf sjálft að taka einhverjar ákvarðanir um þetta. Virðulegur forseti er ekki reiðubúinn til að leggja fram starfsáætlun sem við getum þá farið eftir og alla vega vitað með um sólarhrings fyrirvara hvað við erum að fara að tala um eða hvað við erum að fara að gera hér.

Þetta þing er fyrir nokkru komið út í algera óstjórn. Ég tel einsýnt að við verðum hérna þó nokkuð mikið lengur, út sumarið, geri ég fastlega ráð fyrir sjálfur. Því er best að við förum að ræða dagskrána til lengri tíma og í kjölfar þess að samþykkja vonandi þessa dagskrártillögu, þótt það væri bara til að hafa það á hreinu hvað nákvæmlega við ætlum að tala um á morgun.

En skipulagsleysið er algert. Það er farið að hafa mjög neikvæð áhrif á þingstörfin, eins og við hefðum þurft meira af því hér á bæ. Ég styð tillöguna og hvet alla til að gera slíkt hið sama.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.