144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leika mér í talnaleik út af ástandinu sem ríkir nú í þinginu. Þegar ný ríkisstjórn var mynduð í hruni, minnihlutastjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar, var felld úr gildi starfsáætlun þingsins 6. febrúar 2009. Það var engin starfsáætlun í gildi þann tíma þar til kosningar hófust. Sumarið 2009 var sumarþing. Það var frá 15. maí til 28. ágúst. Haustið 2009 hófum við starf að nýju 1. október og sumarið 2010 hættum við 24. júní. Það eru enn tveir dagar í metið. (Gripið fram í: Ókei.) Þó að þetta sé jafn fáránleg upptalning og hér hefur átt sér stað um það hvenær og hvað hefur gerst þá er þetta nú svona og var líka (Forseti hringir.) þá þó að það sé ekki til eftirbreytni frekar (Forseti hringir.) en það sem við stöndum frammi fyrir í dag.