144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Drunurnar sem við heyrum fyrir utan eru ekki hljóð í þotuhreyflum sem bera íslenskar heilbrigðisstéttir til útlanda í leit að betri vinnuaðstæðum, því síður þotuhreyflar sem bera hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á einni af hennar mjög svo mikilvægu vinnuferðum til útlanda, heldur mótmæli vegna þess að félagslegi túlkunarsjóðurinn er uppurinn. Hefur verið brugðist við því með einhverjum hætti? Nei, það hefur ekki verið gert, því miður. Það birtist áðan í ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar nákvæmlega vilji hv. framsóknarmanna þegar kemur að því að semja um þinglok í þinginu. Það er nefnilega þannig að það tókst fyrir næstum því tveimur vikum að semja um þinglok við Sjálfstæðisflokkinn. Það stendur í rauninni bara upp á Framsóknarflokkinn að vera tilbúinn til þess að setjast að borðinu og fara yfir stöðuna og semja um það hvernig við ljúkum þessu. En það er akkúrat enginn (Forseti hringir.) vilji til þess. Við sáum inn í kvikuna (Forseti hringir.) á því áðan þegar hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði. (Forseti hringir.) Það er gott að menn viti það.