144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrir um sex dögum síðan vorum við þannig stödd hér í þinginu að búið var að semja um á bilinu 50–55 mál, að þau færu í gegnum þingið og það voru nokkrir lausir endar. Þá var það hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, (Sjútvrh.: Það var ekki búið að semja.)það var hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ef ég mætti fá að ljúka máli mínu fyrir hæstv. ráðherra, sem skaut tundurdufli inn í þessar viðræður með því að koma með fullbúið frumvarp inn í makrílmálið sem var búið að semja um með tilteknum hætti. Nú eru skiptar skoðanir um efnisatriði í því máli. En hefði ekki verið hægt að halda aðeins betur á því? Hefði ekki verið eðlilegra að ræða aðeins við menn áður en það var sent til atvinnuveganefndar? Hefði ekki í þeirri viðkvæmu stöðu sem uppi var og allir vissu að var gríðarlega viðkvæm verið hægt að vanda aðeins til verka? Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að halda aðeins í við sig í vandlætingartóninum þegar hann kemur hér upp og skammar stjórnarandstöðuna (Forseti hringir.) fyrir að bregðast illa við.