144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alltaf hægt að deila um það hvernig á að vinna mál. Þegar farið er með tillögur að breytingum við makrílinn inn í atvinnuveganefnd þar sem sérfræðingarnir frá hverjum flokki sitja til þess að ræða það — málið er ekki komið út úr nefndinni, hávaðinn hérna í þinginu er ekki um það — þá er það á þeim vettvangi þar sem hægt er að tala um málið. Ef gengið hefur verið fram hjá þingflokksformönnum eða formönnum flokkanna þá get ég tekið það á mig, ef skynsamlegt hefði verið að gera það og hugsanlega hefði það verið skynsamlegt en það eru jú sérfræðingarnir i nefndinni sem eiga að fjalla um málið, ekki satt?

Síðan er það þannig að þetta þing hefur ekki verið sérstaklega starfsamt, enda hefur stjórnarandstaðan talað í meira en sólarhring undir liðnum um fundarstjórn forseta, (VigH: Fjóra daga.)í 1.400 ræðum eða 1.600 ræðum um fundarstjórn forseta. Það er auðvitað forkastanlegt. Og eru mál seint komin fram? (Gripið fram í: Já.) Ég er búinn að draga mál til hliðar sem kom fram í september sem þingið hefur ekki náð að ljúka fyrr, sem er ekki stórt vandamál. (Forseti hringir.) Það eru einstök mál sem komu (Forseti hringir.) seint fram, það er rétt og ég veit að nefndin hefur unnið hratt í þeim mörgum (Forseti hringir.) hverjum og það er hægt að ljúka þeim ef vilji er til þess. (Forseti hringir.) En það þarf vilja, ekki aðeins öðrum megin frá, (Gripið fram í: Báðum megin. ) ekki öðrum megin frá.