144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Meiri hlutinn hefur vilja til þess að halda áfram með sumarþing en treystir sér ekki til þess að taka á dagskrá mál sem brenna á þjóðinni. Þau brenna ekki bara á okkur í stjórnarandstöðunni heldur á þjóðinni, afleiðingar þess að setja lög á verkföll og afleiðingar þess að gjörbreyta skattkerfinu og afsala sér milljarðatekjum sem annars gætu runnið til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins. Þessi mál viljum við setja á dagskrá en meiri hlutinn treystir sér ekki til þess að ræða. Það er auðvitað grafalvarlegt að halda þinginu hérna áfram í allt sumar en þora ekki í umræðuna um þessi stóru og brýnu mál sem brenna á þjóðinni. Hvers konar aumingjaskapur er þetta, ég verð bara að segja það, herra forseti? Ef menn ætla að halda sumarþing og koma hérna bíræfnir eins og þingmenn Framsóknarflokksins og segja að þeir séu tilbúnir til þess að vera hérna í allt sumar (Forseti hringir.) þá skulu menn ræða þessi alvarlegu mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)