144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil líka gjarnan ræða störf þingsins. Ég held að það sé okkur öllum vonbrigði hve illa gengur að semja um störf þingsins. Ég held að forseti þingsins taki það ekki nærri sér þó að einhverjir krefjist þess og segi að hann mætti reyna meira á sig eða gera betur. Forseti þingsins er ekki fæddur í gær og veit nákvæmlega hvað til hans friðar heyrir.

Ég verð að segja það að ég er svo sem ekki grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari eða neitt slíkt, ég hef hins vegar verið á vinnustað og það jaðraði við að einhver væri lagður í einelti. Á því var tekið. En það er líka þannig að ef allir koma upp og segja að einhver sé lagður í einelti þá fer fólk að trúa því að einhver sé lagður í einelti.

Ég hef ekki orðið vör við það hér í þessum þingsal, virðulegi forseti, að einn eða neinn sé lagður í einelti, enda höfum við öll boðið okkur fram til að vera hér á þessu þingi. Við hljótum að búast við því að störf okkar séu gagnrýnd og því hærra sem við erum í þjóðfélagsstiganum er það eðlilegasti hlutur í heimi að vera gagnrýndur. Ef það er einelti þá á fólk að fá sér aðra vinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)