144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að ræða hér aftur hlut sem ég ræddi fyrir helgi, þ.e. nýgerða stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Seðlabankastjóri segir meðal annars að þessi stýrivaxtahækkun, sem er margboðuð reyndar, og þær sem á eftir muni koma séu vegna aukinna verðbólguvæntinga. Mér sýnist sem Seðlabankinn sé að gera sitt ýtrasta til að búa til þær verðbólguvæntingar með þessari hækkun. Ég sé ekki betur en að með þeim sé verið að rýra kjör fyrirtækja sem eru nú að taka á sig launahækkanir sem eru verðskuldaðar.

Mig langaði til að vitna í grein eftir Gunnar Þór Gíslason rekstrarhagfræðing sem hann ritaði í Morgunblaðið á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi fyrsta vaxtahækkun eykur vaxtakostnað fyrirtækja um 5–7% og setur stórt strik í rekstur margra fyrirtækja. […] Hærri vextir draga einnig úr hvatanum til að leggja í ný verkefni og það mun hamla hagvexti í náinni framtíð og hafa þannig neikvæð áhrif á aukningu kaupmáttar.“

Hér segir líka að hækkun stýrivaxta sé ekki leið til þess að halda aftur af einkaneyslu vegna þess að hér á Íslandi eru flest fasteignalána með föstum verðtryggðum vöxtum. Þetta hefur því ekki áhrif þar á og það eru margar aðrar leiðir vænlegri til að halda aftur af einkaneyslu en stýrivaxtahækkun. Það virðist einhvern veginn vera svo, herra forseti, að Seðlabankinn kunni ekkert annað en að fara í stýrivaxtahækkanir trekk í trekk í stað þess að beita öðrum aðferðum eins og að auka bindiskyldu banka og hafa áhrif á það að hér verði til alvörusparnaður, til dæmis til þess að menn kaupi sér húsnæði. Því miður virðist kjarkleysi og dugleysi Seðlabankans í þessu máli algjört.