144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinsson hvernig stóru bankarnir ásælast sparisjóðina og hvernig það gengur fyrir sig án þess, að því er virðist, að Samkeppniseftirlit eða Fjármálaeftirlit almennt sinni því meginhlutverki sem þeim ber, þessu tvenns konar eftirliti.

Það fer ekki mikið fyrir áliti Samkeppniseftirlitsins þegar stóru bankarnir gleypa sparisjóðina og það fer heldur ekki mikið fyrir Fjármálaeftirlitinu í því ferli. Fjármálaeftirlitið lýsir yfir að það samþykki og sjái ekki ástæðu til annars, en í þessu ferli er að sjálfsögðu verið að rýra samkeppni á fjármálamarkaði og það er verið að beina öllum að stóru bönkunum þremur, plús það að nú varð einn samruninn enn milli MP-banka og Straums. Sá samruni er líka samþykktur af Fjármálaeftirlitinu þannig að við erum, og það hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni, að fá álíka einsleitt bankakerfi og hér var í aðdraganda hruns. Það kallar á skoðun og það kallar á að Fjármálaeftirlitið fari verulega ofan í saumana á þessari yfirtöku, því að ekki er um samruna að ræða, og skoði nákvæmlega í hverju hún er fólgin og af hverju ekki var hægt að verða við óskum innlendra fjárfesta sem vildu taka yfir eins og til dæmis AFL á Siglufirði.

Það hljóta að klingja bjöllur í þessum sal, í það minnsta hjá okkur sem hér sátum árið 2008 þegar bankakerfið hrundi; það virðist sem við stefnum í jafn einsleitt bankakerfi og áður var.

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu, það setur að mér hroll.