144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfum hér á Alþingi nýlega fagnað með hátíðarhöldum 100 ára kosningarréttarafmæli kvenna en það má segja að þetta ár einkennist líka af kvennabyltingu. Konur eru að brjóta þöggunar- og skammarmúrinn í kringum kynbundið ofbeldi með táknmyndabirtingu, gulum og appelsínugulum, á facebook. Ungar konur er að taka sér skilgreiningarvaldið yfir eigin líkama, með Free the Nipple-átakinu, en síðast en ekki síst eru konur á íslenskum vinnumarkaði að rísa upp gegn kynbundnum launamun. Við sjáum það í verkföllum BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að konur ætla ekki að sætta sig við það lengur að þeim sé mismunað í launum á grundvelli kyns. Auk þess er rétt að minna á það í þessum sal að það er beinlínis bannað, samkvæmt íslenskum lögum, að borga konum minna en körlum.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur bent á það að ekki hafi orðið fjölgun á alvarlegum atvikum á Landspítala á milli ára þrátt fyrir verkföll. Hann segir að ef orðið hafi einhver skaði af verkföllunum geti orðið erfitt að sjá það og hann voni þá að sá skaði verði ekki óafturkræfur. En skaðinn kynni að verða óafturkræfur vegna þeirra laga sem hér voru sett og hefur valdið því að tugir og hundruð kvenna hafa sagt upp störfum og karlar einnig þó þeir séu í miklum minni hluta í þessum stóru kvennastéttum.

Bent er á það í ágætri grein eftir Maríu Ósk Gunnsteinsdóttur hjúkrunarfræðing, í Fréttablaðinu í gær, að ef hjúkrunarfræðingar tækju því tilboði sem legið hefur á borðinu yrðu þær áfram með 14–25% lægri laun en hefðbundnar sameiginlegar karlastéttir hjá ríkinu eftir fjögurra ára nám. Ég vona svo sannarlega að samninganefnd ríkisins gangi að samningaborðinu nú með það að markmiði að eyða kynbundnum launamun svo að skaðinn verði ekki óafturkræfur af lagasetningu stjórnarmeirihlutans.