144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er erfitt að sitja undir slíkri niðurlægingu, eins og raunin varð, þegar hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talar í lok umræðunnar um störf þingsins á þann veg að ég hafi verið að tala niður til almennings í landinu þegar ég ræði mál sem eru efst á baugi í þjóðfélaginu og fer yfir þau.

Hér talar maður sem telur sig hafa efni á því að tala eins og sá sem valdið hefur og með miklum hroka; hann útskýrir fyrir almenningi hvernig hann lítur á það að verið sé að ráðstafa makríl til langs tíma. Það fer ekkert á milli mála að með því að hlutdeildarsetja makríl, eins og þetta makrílfrumvarp lítur út, er verið að ráðstafa makríl til langs tíma. Það er með reglugerð til eins árs í senn, en með kvótasetningu. En í makrílfrumvarpinu sem við deilum um er verið að hlutdeildarsetja til langs tíma (Forseti hringir.) og það er sannleikur málsins.

Mér líkar ekki þegar ræðustóll Alþingis er notaður til þess að gera lítið úr öðrum þingmönnum gagnvart almenningi, eins og hv. þingmaður gerir.