144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera athugasemdir við það þegar þingmaður sem er 15. á mælendaskrá undir liðnum um störf þingsins beinir orðum sínum með lítillækkandi hætti að öðrum þingmanni án þess að dagskrárliðurinn rúmi hennar andsvör. Það er óþolandi, virðulegi forseti. Ég óska eftir því að það sé sérstaklega skoðað og viðkomandi þingmaður sé minntur á þá góðu reglu sem hann ætti náttúrlega að þekkja og honum ætti að vera vel kunnugt, enda sat hann í forsætisnefnd síðast þegar ég vissi og ætti þá að þekkja grundvallaratriðin í þessum siðum sem við viljum viðhafa innan þingsins. En svo virðist vera að framsóknarmenn séu svo illa haldnir að sjálfsupphafningu og að ég segi ekki leiðtogablæti að það sé orðið þannig að þeir séu hafnir yfir alla venjulega mannasiði hérna. Svo koma þeir hér vælandi hver á fætur öðrum og leyfa sér, þessi valdaflokkur á Íslandi, að (Forseti hringir.) kalla það einelti. Kalla það einelti, svo alvarlegt sem það er, grafalvarlegt mál sem einelti er, (Forseti hringir.) þegar stjórnarandstaðan viðhefur sitt eðlilega viðnám og sína eðlilegu gagnrýni gagnvart (Forseti hringir.) valdhroka og yfirgangi þess flokks.