144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég tók eftir því fyrr í vetur að þá var einhver þingmaður Vinstri grænna sem talaði um hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson undir liðnum um störf þingsins en gaf ekki Guðlaugi Þór tækifæri til að svara. Það er almenn kurteisi ef maður er að tala um annan mann eða er með einhverjar aðdróttanir í hans garð að gefa mönnum tækifæri til að svara, það er bara almenn kurteisi. Nú, Guðlaugur Þór kom hérna upp undir þessum lið (Forseti hringir.) hinn reiðasti.

(Forseti (EKG): Þingmaður á að nefna aðra hv. þingmenn með fullu nafni.)

Hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson kom hérna upp alveg bálreiður og kvartaði undan þessu og Svandís Svavarsdóttir, hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, kom upp í ræðustól og baðst afsökunar, sagði, já, að sjálfsögðu verðum við að gæta að þessu í störfum þingsins. Ég hef átt þetta samtal líka við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði að það væri ekki stefna hennar flokks að vanvirða þessa reglu. Þannig að þetta (Forseti hringir.) virðist vera regla, almenn góð regla í samfélaginu, eitthvað (Forseti hringir.) sem er venjuhelgað á þingi (Forseti hringir.) og er kannski bara gott að hv. þingmenn Framsóknarflokksins virði líka.