144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Þetta er óneitanlega búinn að vera sérstakur dagur og áhugavert að taka hér upp umræðu klukkan níu að kvöldi. Við vorum búin að eiga ágæta umræðu um þetta mál, í gær kom hæstv. menntamálaráðherra í pontu og ræddi ákveðin atriði er varða þetta og skýrði ýmislegt, m.a. má skilja sem svo að skólahaldi í tónlistarskólum á framhaldsstigi verði áfram haldið á tilteknum stöðum að minnsta kosti vítt um landið og er það vel. En ég hef nú varann á mér í ljósi umræðunnar um framhaldsskólana og þeirrar stöðu sem þeir lentu í, m.a. sá sem ég kom úr vinnu frá og var mikið búið að ganga á í því sambandi sem var svo sagt vera misskilningur þegar á reyndi. Ég hef áhyggjur af því að þetta haldi ekki og hér verði einn tónlistarskóli á höfuðborgarsvæðinu á ríkisframlagi, ekki endilega ríkisrekinn í eiginlegum skilningi, gæti allt eins verið einkarekinn með ríkisframlagi, sem eigi að taka við eins og ráðherra nefndi afburðanemendum og þeim sem ætla að leggja fyrir sig tónlist jafnvel sem atvinnu. En það eru jú margir aðrir en slíkir nemendur að læra tónlist á framhaldsskólastigi.

Ég hef gert athugasemd við og haft áhyggjur af framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Mér fannst því ekkert sérstaklega vera svarað í gær. Auðvitað tóku sveitarfélögin þetta yfir til sín, vissulega gerðu þau það með samkomulagi sem gert var 2011 og lögðu í þetta púkk að vera með varasjóð húsnæðismála. Ég kem úr sveitarfélagi þar sem á eftir að selja töluvert af íbúðum. Það er líka svoleiðis fyrir vestan og víðar og þá skipta máli þær milljónir sem sjóðurinn getur látið af hendi rakna upp í mismun á söluverði og áhvílandi lánum sem er þá ekki til staðar núna. Sveitarfélögin fengu send bréf í lok maí, 21. maí, þar sem þeim er sagt frá því að sjóðurinn sé lagður af. Ég veit að Samband íslenskra sveitarfélaga er vissulega heildarsamtök fyrir sveitarfélögin og getur kannski ekki alltaf talað fyrir hvert og eitt sveitarfélag á öllum tímum, en þegar maður kemur úr sveitarfélagi þar sem hver króna skiptir máli og íbúafjöldinn er ekki mikill hefur maður áhyggjur af þessu. Meðal annars hafa Dalvíkurbyggð og fleiri bókað í sínum fundargerðum að óskað sé eftir upplýsingum frá sambandinu um það hvernig eigi að tryggja þetta verkefni áfram. Það hefur í raun ekkert annað komið fram en akkúrat það sem við höfum fengið upplýsingar um hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í allsherjar- og menntamálanefnd annars vegar og svo frá sambandinu. Þeir telja bara þetta verkefni mikilvægara en hitt. Þá segi ég að þetta er auðvitað fyrst og fremst vandi tónskólanna á höfuðborgarsvæðinu af því að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að túlka samkomulagið með öðrum hætti en sveitarfélögin á landsbyggðinni. Þarna finnst mér landsbyggðin gjalda fyrir það. Þarna er verið að taka 30 milljónir tvisvar sinnum að minnsta kosti til þess að fylla upp í þetta samkomulag. Ég gagnrýndi þetta auðvitað og spurði ráðherra í gær um það því nú er verið að leggja til milljarða í aukafjárveitingar á fjáraukalögum vegna þess að ríkisstjórnin ákveður það í vegamálum, innviðum og slíku. Hér erum við að tala um smáaura í því samhengi. Af hverju í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki bara tekið það og viðhaldið áfram varasjóði húsnæðismála?

Virðulegi forseti. Ég er hér í síðari ræðu og hef lítinn tíma, en þetta er eitthvað sem ég hefði viljað fá svör við, a.m.k. frá sambandinu. Við fengum ekki svör við því í nefndinni hvernig það sæi fyrir sér að þessi mál yrðu leyst hjá sveitarfélögum til framtíðar sem eiga undir högg að sækja varðandi íbúðaverð og þess háttar.

Við í nefndinni flytjum þetta mál af því að það er (Forseti hringir.) skólunum mikilvægt. Við stöndum að því þess vegna, en það er ekki vegna þess að við viljum það endilega, (Forseti hringir.) við hefðum viljað að málið hefði verið leyst með öðrum hætti.