144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef í sjálfu sér ekki svör við því hvers vegna þingmenn sem eiga aðild að borgarstjórn núna frekar en áður svari fyrir þau mál sem eru til umræðu í þinginu hverju sinni. Varðandi það að allsherjarnefnd flytji málið núna tel ég ekki vera samskiptaleysi milli ríkis og sveitarfélaga eða eitthvað slíkt, það er fyrst og fremst það að ráðherra leysti ekki málin á tilskildum tíma. Það var auðvitað í valdi hans að gera það.

En ég tek undir orð hv. þingmanns. Minn flokkur á aðild að meirihlutastarfi í Reykjavíkurborg núna og hefur valið að túlka samkomulagið á annan hátt, þeir fulltrúar sem sitja þar við völd í bæði, held ég, meiri hluta og minni hluta hafa gert það og við höfum ekki getað skilið þetta öðruvísi.

Það kom fram í máli fyrrverandi menntamálaráðherra í gær í andsvörum við núverandi menntamálaráðherra að þau skildu málið eins, þ.e. grunn málsins, forsendurnar. Ég tek undir þann skilning og þess vegna hef ég sagt að ég held að samtalið þurfi að eiga sér stað. Við hefðum getað krafið þá um svör sem telja sig geta svarað fyrir það hvers vegna borgarfulltrúar allra þeirra flokka sem að meiri hluta standa núna skilja þetta á svona. Við getum líka óskað þeirra svara í menntamálanefnd og höfum auðvitað fengið hluta af þeim. En fyrst og fremst er það Samband íslenskra sveitarfélaga sem fer fyrir hönd allra sveitarfélaga í landinu og segir þetta og tekur þessa afstöðu. Það er það sem mér mislíkar, af því að Reykjavíkurborg ein og sér velur að túlka á þennan hátt. Ég vildi svo sannarlega að sambandið segði: Litlu sveitarfélögin úti á landi sem þurfa á varasjóðnum að halda eiga að njóta vafans en ekki túlkun Reykjavíkurborgar einnar.