144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætisandsvar en við vitum alveg hvers vegna þetta mál liggur hér fyrir og af hverju við erum að leggja það fram. Það er einfaldlega vegna þess að ekki hefur náðst að leysa stóra hnútinn sem málið er í. Grunnurinn að þeim hnút er mismunandi túlkun á þessu samkomulagi. Mér er algjörlega og fullkomlega óskiljanlegt af hverju einn aðili getur verið með allt aðrar túlkanir á samkomulaginu en allir aðrir sem að málinu standa þannig að við sitjum uppi með það að málið er í slíkum hnút að við þurfum að leysa það á þennan hátt. Þetta er ekki lausn á málinu heldur bráðabirgðalausn sem dugar aðeins í nokkra mánuði, sem er auðvitað ekki til fyrirmyndar. Engu að síður erum við í nefndinni öll sammála um að það er ekkert annað að gera en að standa að þessu máli hér. Þess vegna leggjum við það fram og vonumst til þess að það hljóti brautargengi í þinginu.

Spurning mín var einfaldlega sú hvort einhverjir fulltrúar þessara flokka hefðu komið hingað upp og útskýrt fyrir okkur hvers vegna túlkun Reykjavíkurborgar er með þessum hætti. Eins og ég skildi hv. þingmann hefur enginn komið upp og svarað þeirri spurningu.