144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:12]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það hefur enginn fulltrúi Reykjavíkurborgar eða þeir aðilar sem eiga fulltrúa við stjórnvölinn í Reykjavíkurborg komið og útskýrt þetta fyrir okkur, enda getur það vel gerst, eins og hv. þingmaður þekkir, að við séum ekki endilega sammála túlkun félaga okkar í sveitarstjórnum hvar á landinu sem það er hverju sinni. Eins og ég sagði áðan, og mér finnst það mjög mikilvægt, er Samband íslenskra sveitarfélaga viðsemjandi ríkisins í þessu máli. Það er sambandið sem fer með umboðið og mér finnst sambandið taka afstöðu stærsta sveitarfélagsins og vinna með hana en taka ekki sveitarfélögin sem síður standa og þurfa kannski á þeim krónum og milljónum að halda sem til dæmis varasjóðurinn sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni þurfi að njóta að aðalefni. Ég finn svo sannarlega til með tónlistarskólum á höfuðborgarsvæðinu og vil að þeir fái að starfa áfram, svo að það sé sagt. Ég er ein af þeim sem telja það menningarlíf sem tónlistin og tónlistarnám er vera afar mikilvægt og þurfa miklu meiri stuðning en kannski er. En sá skilningur sem Reykjavíkurborg virðist leggja í samkomulagið, að ríkið hafi alfarið ætlað að borga framhaldsnám, er ekki samkvæmt þeirri túlkun sem ég og hv. þingmaður deilum.

Það kom fram hjá einum þingmanni að það væri skítaredding að allsherjar- og menntamálanefnd væri að flytja þetta mál. Ég tek það orð kannski ekki upp í mig en við erum alveg sammála um það að við hefðum helst viljað að þetta samstarf hefði verið búið að fá einhvern tiltekinn farsælan endi, hvort sem væri í formi einhvers konar samkomulags eins og hér er um að ræða eða einhvers annars, svo að við þyrftum ekki að standa í þessu. Við vonum það svo sannarlega að að ári eða nokkrum mánuðum liðnum þurfum við ekki að gera það.